Fréttir

Valur Orri Valsson semur til tveggja ára
Karfa: Karlar | 15. maí 2022

Valur Orri Valsson semur til tveggja ára

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur endurnýjað samning sinn við bakvörðinn Val Orra Valsson. Valur Orri semur til tveggja ára. Keflvíkingar eru að vonum ánægðir með þessi tíðindi enda Valur Orri svo sannarlega sannur Keflvíkingur eftir að hafa verið stór hluti af Keflavíkurliðinu sl 10 ár, ef frá er tekið skólastoppið hans í Vesturheimi. Á nýliðnu tímabili skilaði Valur Orri tæpum 9 stigum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik.

 

Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður KKDK, kvaðst gríðarlega ánægður með ákvörðun Vals enda liti hann svo á að Valur Orri væri nánast eins og uppalinn Keflvíkingur í hans augum. “Valur Orri færir okkur ótrúlega mikið. Hæfileikar hans eru óumdeildir en það er kannski svægi hans á velli og þessi títtnefnda “önnur vídd” sem hann spilar leikinn í sem er svo áhugaverð og skemmtileg. Svo má ekki gleyma því að þrátt fyrir ungan aldur er kappinn með ótrúlega reynslu og hún er mikilvæg”

 

Valur Orri sjálfur segist hlakka mikið til næsta tímabils. “Ég er bæði ánægður og stoltur að halda ferli mínum áfram í búningi Keflavíkur. Mér lýst vel á nýja stjórn og alla þá sem eru að koma að þessu. Ég get ekki beðið eftir að næsta tímabil byrji því við erum með virkilega góðan hóp og þjálfara. Við erum með lið sem getur keppt um titla og því er ég bara spenntur fyrir því að byrja undirbúning að skemmtilegum tímum.”