Fréttir

Körfubolti | 16. mars 2007

0 – 1 gegn Snæfelli í átta liða úrslitum

Keflavík byrjaði vel í kvöld í fyrsta leik í átta liða úrslitum Iceland Express deildarinnar. Staðan var 9-2 fyrir Keflavík eftir nokkrar mínútur og gestirnir virtust vel stemmdir. En svo var fjörið búið. Tony (9 st, 6 stoð) og Sebastian (14st, 5 frák) hófu leikinn af krafti, en meiðslin gerðu vart við sig hjá Tony svo hann lék á hálfum hraða í fyrri hálfleik og sat á bekknum í þeim seinni. Sebastian gerði sér lífið erfitt eftir góða byrjun og klúðraði mörgum góðum færum.

Snæfellingar léku góða vörn allan leikinn og náðu forystunni með því að komast trekk í trekk upp að körfu Keflvíkinga, annað hvort með sendingum eða þá eftir sóknarfráköst. Afleiðingin var sú að þeir fengu mikið af auðveldum skotum sem þeir nýttu sér. Enda var 2ja stiga skotnýting þeirra 63% sem er til marks um hve oft þeir voru í opnum færum nálægt körfunni.

Snæfell náði í öðrum leikhluta forystu sem rokkaði lengi í kringum 10 stig og endaði í 17 stigum í lokin, 84-67. Keflvíkingar voru þunglamalegir í sóknarleiknum, gerðu mikið af óþarfa mistökum og sóttu lítið undir körfu andstæðinganna. Tvisvar hentu þeir boltanum beint í hendur andstæðinganna úr innkasti og töpuðu boltanum alls 21 sinni.

Maggi Gunn kom með góðan sprett í seinni hálfleik þegar hann setti þrjá þrista á skömmum tíma, en því miður voru á sama tíma allar flóðgáttir opnar í varnarleiknum svo ekki minnkaði munurinn. Niðurstaðan var öruggur sigur heimamanna.

Jonni (11 st, 10 fr), Maggi (12 stig, 4 þristar) og Sverrir (9 st, 5stoð, 5 stolnir) voru ágætir í kvöld og Þröstur (7 st) átti prýðilega innkomu. En það er ekki nóg. Fráköstin voru skelfileg, beggja vegna vallarins og útlendingarnir voru slakir. Tony er náttúrulega meiddur og ekki hægt að búast við miklu frá honum, því miður. En aðrir bættu sig ekki til að vega það upp. Gunnar Einarsson átti skelfilegan leik, fékk fimm villur á fimm mínútum og skoraði ekki stig. Breiddin er ekki mikil um þessar mundir og því verða allir að ná toppleik, ef við eigum að eiga séns.

Hlynur var góður hjá Snæfelli (18sti, 10 frák) og einnig voru Magni, Justin og Jón góðir. En Snæfell leikur, eins og áður segir, góða vörn, en sóknarleikurinn þeirra er frekar hægur og stirður. Okkar menn verða að finna leið til að nýta sér það á laugardaginn, nú er aðeins einn séns eftir!

Dómararnir í kvöld voru slakir, dæmdu m.a. tæknivillu á Sigurð þjálfara fyrir að skamma eigin liðsmenn og slepptu a.m.k. tvisvar augljósum brotum í þriggja stiga skoti í horninu í fyrri háfleik.

En málið er einfalt, annað hvort vinnst sigur í næsta leik eða þá að leiktíðinni lýkur á laugardag. Við skulum vona að menn mæti í sparistemmningunni og sýni hvað í þeim býr.

ÁFRAM KEFLAVÍK!