1-1 í úrslitunum - slök vörn hjá Kef og fáránleg mistök á ritaraborði
Leikur kvöldsins var hraður og skemmtilegur. Snæfellingar höfðu betur í spennuleik, 97-93. Okkar menn voru þokkalega sprækir lengst af, en náðu þó engan veginn að leika vörn af eðlilegri getu. Frekar var eins og að okkar menn væru að keppast um að gefa Snæfellingum opin skot og varð það okkur að falli fyrir rest.
Einnig vakti sérlega athygli að ritaraborð leiksins ásamt eftirlitsmanni ákváðu upp á sitt einsdæmi að telja ekki allar körfur Keflvíkinga (!!). Þannig var að Jonni skoraði rétt fyrir lok 3ja leikshluta og kom Keflavík í 73-68. Einhverra hluta vegna var búið að þurrka þessa körfu út þegar fjórði leikhlutinn hófst og staðan orðin 71-68. Áhorfendur og leikmenn gerðu athugasemdir við ritaraborðið en þeim var tjáð að staðan væri rétt. Það var síðan ekki fyrr en að menn fóru að bera saman bækur sínar að leik loknum, þ.e. ritarar, stattarar og sjónvarpsmenn, að í ljós kom að 2 stig höfðu verið þurrkuð út hjá Kef. Þetta eru algerlega óskiljanleg mistök og grafalfarleg í úrslitakeppninni. Leikurinn var spennandi allt til endaloka og tvö stig geta skipt öllu máli. Sigurður Þorvaldsson kom t.d. Snæfelli í tveggja stiga forystu þegar um 30 sekúndur voru eftir af leiknum, en með réttu var hann að jafna leikinn. Með réttu hefðu Keflvíkingar haft boltann í jöfnum leik og 30 sek eftir. Það er svolítið annað en að hafa boltann og vera tveimur stigum undir. Keflvíkingar eru afar undrandi á þessum vinnubrögðum og vona að fólk sem er starfinu vaxið verði látið sinna því næst. Svona mistök mega ekki eiga sér stað, það er svo einfalt! Í raun ætti að ógilda úrslit leiksins vegna þessara mistaka og ætlar stjórn Keflavíkur að athuga hvort hún getur leitað réttar síns því klárlega hefur verið brotið á honum. Það stríðir algerlega gegn reglum leiksins að telja ekki öll stigin!
En að leiknum sjálfum. Jonni var mjög góður, sem og Nick. Gunni E átti prýðilega innkomu og er allur að braggast, Maggi átti fína spretti. Glover var langt frá sínu besta og lét Clemmons hafa betur í þeirra viðureign. Nick skoraði 25, Jonni 18 (þótt aðeins 16 væru skráð), Gunni og Maggi gerðu 16. Sexmenningar Snæfells áttu allir ágætan dag í dag, en þó var það fyrst og síðast varnarleikur okkar manna sem varð okkur að falli í kvöld. Dómaravælið í Bárði, þjálfara Snæfellinga, virtist bera ávöxt því dómararnir dæmdu 18 villur á Snæfell, en 45% fleiri villur á Keflavík, eða 26, og slepptu m.a. augljósri villu þegar brotið var á Magga á lokasekúndum leiksins. En dómararnir voru annars ágætir, líkt og í fyrsta leiknum, og hafa leitt þessa leiki ágætlega til þessa. Vonandi hættir Bárður bráðum að væla, þetta er ekki mjög stórmannalegt hjá honum.
Næsti leikur er á fimmtudag og mæta okkar menn eflaust grimmir í þann leik, enda er það nokkuð ljóst að ef vörn okkar manna er leikin af krafti og skynsemi, þá vinnur Keflavík.