10. flokkur karla siglir lygnan sjó í B-riðli
10. flokkur karla lék um síðustu helgi á Íslandsmóti yngri flokka og var þetta fyrsta mótið af fjórum í vetur hjá strákunum.
Á laugardeginum var leikið á Selfossi og var fyrri leikurinn gegn liði Ármanns sem drengirnir unnu 57-53. Sigurinn var þó öruggari en tölurnar gefa til kynna því Keflavík hafði 10 stiga forystu þegar innan við þrjár mínútur voru til leiksloka. Seinni leikur dagsins var gegn liði Fjölnis sem leiddi leikinn allt frá byrjun en okkar drengir voru þó aldrei langt undan. Í hálfleik munaði fimm stigum á liðunum og Keflvíkingar komu sterkir inn í þriðja leikhluta og unnu hann með þremur stigum. Í fjórða leikhluta náðu okkar menn ekki að halda haus og Fjölnismenn unnu verðskuldaðan sigur 71-57.
Á sunnudeginum var leikið í Þorlákshöfn og var fyrri leikurinn gegn Kára Mar. og lærisveinum hans í liði Tindastóls. Skemmst er frá því að segja að Keflavík vann góðan sigur, 61-57, eftir hörku leik þar sem munurinn á liðunum varð aldrei mikill. Seinni leikur dagsins gegn heimamönnum í Þór Þ./FSu, varð aldrei verulega spennandi þrátt fyrir ágætan leik Keflvíkinga í fyrri hálfleik. Það virtist sem drengirnir væru orðnir saddir í síðari hálfleik eftir átök helgarinnar og heimamenn unnu öruggan sigur, 61-45.
Margt jákvætt var að sjá í leik liðsins um helgina. Á köflum voru þeir að spila glimrandi bolta en svo komu líka kaflar þar sem þeir voru alveg heillum horfnir. Stöðuleikinn virðist vera helsta vandamál liðsins og það er verðugt verkefni að vinna með hjá Pétri þjálfara og drengjunum á komandi vikum. Næsta fjölliðamót liðsins verður 27.-28. nóvember og spennandi verður að sjá hvort liðið stígi ofar eða haldi sjó. Líklega leika þeir þó í millitíðinni á útivelli gegn KRb í bikarnum en ekki hefur verið settur á leikdagur fyrir þann leik.
Staðan í B-riðli eftir leiki helgarinnar:
Þór Þ./FSu - 6 stig
Fjölnir - 6 stig
Keflavík - 4 stig
Tindastóll - 4 stig
Ármann - 0 stig
Lið Ármanns fellur niður í C-riðil og b-lið Stjörnunnar kemur upp. Þór Þ./FSu fer upp í A-riðil og lið Breiðabliks fellur niður í B-riðil.