Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 9. febrúar 2011

10. flokkur stúlkna - 4 leikir - 4 sigrar

10. flokkur stúlkna spilaði um helgina í Smáranum í Kópavogi. Enn og aftur var spilað þvert á völlinn (þ.e. í öðrum helming hússins) þó að ekki væri verið að nota hinn helminginn og ekki bætir það að lýsing er mjög döpur við aðra körfuna. Þetta bitnar reyndar jafnt á öllum liðum og því ekki rætt meira um það. 
 
Snúum okkur að leikjunum. Með Keflavík í A-riðli voru Grindavík, Hrunamenn, Njarðvík og heimastúlkur úr Breiðablik.
 
Fyrsti leikur á laugardeginum var á móti Grindavík. Stelpurnar voru dálítið ryðgaðar í þessum leik eins og oft vill vera hjá þeim í fyrsta leik. Nokkur vandræðagangur var í byrjun leiks og hann ekki mikið fyrir augað. Sigur hafðist í þessum leik 51 – 19. Einn sigur kominn.
 
Leikur tvö var við granna okkar úr Njarðvík. Nokkur spenna var í stelpunum fyrir þennan leik enda um erkifjendur að ræða. Keflavík spilaði hörku vörn í þessum leik, reyndar vörn sem hvaða lið í hvaða deild sem er getur verið stolt af. Sama hvaða stelpur voru inná, allir tólf leikmennirnir spiluðu fanta vel og komust á skorlistann. Strax í byrjun sást í hvað stemmdi og leikurinn endaði 83 – 38 fyrir okkar liði. Tveir sigrar í höfn.
 
Mæting í þriðja leik var kl. 09:45 á sunnudagsmorgninum og leikur númer þrjú var á móti Hrunamönnum. Stelpurnar frá Flúðum voru að spila í A-riðli í fyrsta sinn á þessum vetri en þær náðu að stríða öðrum liðum á laugardeginum. Það mátti því ekki vanmeta þær fyrir nokkurn mun. Stelpurnar okkar mættu í þennan leik með sama hugarfar og verið hafði í seinni leik laugardagsins. Enduðu leikar svo 72 – 24 fyrir Keflavík. Þrír sigrar í höfn.
 
Fjórði leikur var svo gegn heimastúlkunum í Breiðablik. Breiðablik hefur verið í öðru sæti í riðlinum og því vitað að um erfiðan andstæðing væri að ræða.  Okkar stúlkur byrjuðu leikinn með hörku vörn og slógu andstæðinginn út af laginu í fyrsta leikhluta. Þessi vörn gerði það að verkum að leikurinn varð aldrei spennandi og endaði 81 – 35 okkur í vil. Fjórir sigrar í fjórum leikjum og stelpurnar búnar að vinna alla sína 12 leiki á Íslandsmótinu í vetur.
 
Stelpurnar 12 sem spiluðu áttu allar frábæra helgi.  Vörnin var súper og sóknin flott og þetta skilaði skori uppá 287 á móti 116. Stelpurnar sem spiluðu fyrir 10. flokk um helgina voru: Ingunn Embla, Thelma Hrund, Katrín Fríða, Rán Ísold, Sandra Lind, Bríet Sif, Sara Rún, Elínora Guðlaug, Helena Ósk, Ólöf Rún, Birta Dröfn og Kristrún.
 
10. flokkur hefur spilað tvö leiki í bikarkeppninni og hafa báðir unnist og stelpurnar komnar í undanúrslit. Þar mæta þær Haukum á heimavelli, leikdagur ekki ákveðinn.
 
Flott helgi hjá ykkur stelpur!!
 
Áfram Keflavík