10. flokkur stúlkna Íslandsmeistarar
Fyrri helgi úrslita á Íslandsmótinu í körfuknattleik var um s.l. helgi. Þar keppti 10. flokkur stúlkna ásamt Njarðvík, Grindavík og Breiðablik. Leikið var í Laugardalshöllinni og var umgjörðin í umsjá Fjölnis sem stóð sig með miklum sóma við framkvæmdina. Leikirnir voru sýndir beint á fjolnir.is og tölfræðin var í beinni á kki.is. Virkilega gaman þegar yngri flokkum er gert svona hátt undir höfði.
Njarðvík mætti Grindavík á laugardeginum í fjögurra liða úrslitum. Grindavík hafði 10 stiga sigur og komst þannig í úrslitaleikinn gegn Keflavík eða Breiðablik sem mættust í hinum undanúrslitaleiknum sama dag.
Leikur Keflavíkur og Breiðabliks náði aldrei miklu flugi og lítið var skorað miðað við það sem gerst hafði fyrr í vetur hjá okkar stelpum. Vanmat eða eitthvað annað var að plaga okkar lið en leikir á móti Breiðablik hafa unnist nokkuð stórt í vetur. Fór þó svo að okkar stúlkur sigruðu með 10 stiga mun 48-38 og voru komnar í úrslitaleikinn. Sara Rún og Thelma Hrund voru stigahæstar í liði Keflavíkur í þessum leik en flestar spiluðu langt undir getu.
Á Sunnudeginum kl. 10:00 var komið að úrslitaleik gegn stúlkunum í gulu búningunum frá Grindavík. Það er í raun fátt um þann leik að segja nema hann var auðveldur fyrir Keflavík frá fyrstu mínútu og vannst leikurinn 71 -31 sem verður að teljast frekar mikið þar sem um úrslitaleik var að ræða. Allar stúlkurnar fengu að spreyta sig og stóðu sig með miklum sóma og greinilegt að þjálfarinn hafði komið stúlkunum í rétta gírinn fyrir þennan leik. Sara Rún, Sandra Lind og Ingunn Embla voru stigahæstar í þessum leik og Sara Rún hlaut titilinn stúlka leiksins.
Þetta er þriðja árið í röð sem þessar dömur vinna Íslandsmeistaratitilinn. Þriðja árið í röð þar sem þær tapa ekki leik allt tímabilið en fyrr í vetur urðu þær bikarmeistarar. Frábær árangur hjá þeim, sem gildir reyndar um alla yngri flokka stúlkna. Ef þessar stúlkur halda áfram á þessari braut þá þarf ekki að kvíða framtíðinni í keflvískum körfubolta. Einnig má minnast á það að margar af þessum stúlkum spila með fleiri en einum flokki og nokkrar af þeim eru í U-15 og/eða U-16 ára landsliðum sem spila í Danmörku og Svíþjóð í sumar.
Þjálfari stúlknanna er Jón Guðmundsson. Þetta var ekki fyrsti titillin hjá honum í vetur og á hann möguleika á einum til viðbótar um næstu helgi þegar hann mætir með 9. flokk í úrslit.
Til hamingju stelpur – frábær árangur enn og aftur.
F.h. Stoltra foreldra – Áfram Keflavík
Keflavík Íslandsmeistari í 10. flokki 2011
Fyrirliðarnir - Ingunn Embla og Thelma Hrund
Sara Rún hlaut tililinn maður leiksins!
Thelma Hrund
Kristrún