Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 5. desember 2011

11. ára drengirnir öflugir í minniboltanum

Drengirnir í minnibolta 11. ára hafa lokið tveimur umferðum á Íslandsmótinu og staðið sig með eindæmum vel. Þessi flokkur er skipaður drengjum fæddum árið 2000 og hafa fengið uppfyllingu frá fjórum drengjum f. 2001 og einum f. 2002.

 

Fyrst var spilað helgina 22. og 23. okt. í Helli þeirra ÍR-inga en drengirnir léku í A-riðli. Leikur 1 var gegn grönnum okkar úr Njarðvík. Leikurinn fór vel af stað hjá báðum liðum en þegar Arnór Sveinsson tók sig til og tróð með tilþrifum var leikurinn okkar. Sigur í fyrsta leik á Íslandsmóti 56-40. Næst var tekið á móti spræku liði Stjörnunnar úr Garðabæ. Leikurinn var í járnum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og endaði með sigri Keflavíkur 38-37 en Arnór Sveins skoraði sigurstigið af vítalínunni. Leikur 3 var gegn heimamönnum í ÍR og endaði með nokkuð þægilegum sigri okkar drengja 74-19. Fjórði og síðasti leikurinn og jafnframt úrslitaleikur umferðarinnar var á móti KR. Það var ekki sökum að spyrja okkar drengir byrjuðu leikinn með látum og önnur tröllatroðsla frá Arnóri Sveinssyni kom okkar drengjum á bragðið. Við höfðum þægilegt forskot fyrir 4. leikhluta en sá leikhluti reyndist erfiður viðureignar og KR-ingar náðu að komast yfir og vinna leikinn, 26–30.

 

KR-ingar urðu í fyrsta sæti, Keflavík í öðru og ÍR-ingar féllu í B-riðil. Góður árgangur hjá þessum drengjum sem voru að stíga sín fyrstu skref á Íslandsmóti.

 

Önnur umferðin var leikinn í Garðabæ helgina 19. og 20. nóv. en spilað var í Sjálandsskóla. Fyrsti leikur var á móti Hrunamönnum sem höfðu komið upp úr B-riðli. Óhætt að segja að mótspyrna þeirra hafi komið þægilega á óvart og greinilega mikið og gott körfuboltastarf unnið á Flúðum. Leikurinn var nokkuð jafn þangað til Arnór Sveinsson átti tröllatröðslu, ekki bara eina heldur tvær og Keflavík vann sannfærandi sigur 60-39. Leikur tvö var á móti heimamönnum úr Stjörnunni sem hafa góðu liði á að skipa. Þetta varð hörkuleikur og okkar drengir inní leiknum en misstu hann frá sér og Stjarnan sigraði 40-30. Fyrsti leikur á sunnudegi var á móti Njarðvík. Eins og alltaf þegar spilað er á móti Njarðvík, alveg sama í hvaða flokki er, varð úr hörku leikur. Góð barátta hjá báðum liðum enda voru þarna andstæðingar sem vilja fyrir alla muni ekki tapa fyrir hvor öðrum. Leikurinn endaði með sigri Keflavíkur með minnsta mun 36-35 þar sem Arnór Daði skoraði sigurstigið af vítalínunni þegar 1 sek. var eftir. Síðasti leikur þessara umferðar var á móti sigurvegurum fyrstu umferðar, KR-ingum sem höfðu tapað öllum leikjum helgarinnar fram að þessum. Okkar drengir vildu ólmir hefna fyrir fyrstu umferðina og sigra drengina í röndóttu búningunum. Viti menn það tókst og KR-ingar sem unnu fyrstu umferðina féllu í B-riðil. Lokatölur 44-32. Annað sætið í riðlinum var okkar drengja aftur en Stjarnan var sigurvegri þessarar umferðar. Riðillinn sem drengirnir spila í er mjög sterkur, allir geta unnið alla eins og sést á því að KR-ingar falla eftir aðra umferðina.

 

Árangur okkar drengja er til mikillar fyrirmyndar og hafa þeir tekið miklum framförum frá því byrjað var að æfa í september. Þjálfari drengjanna er Björn Einarsson sem er að gera virkilega góða hluti með þennan flokk líkt og aðra flokka sem hann stýrir.  Í þeim leikjum sem Björns hefur ekki notið við hefur engin annar en Sigurður Ingimundarson leyst hann af hólmi.

 

Gaman að geta tekið fram að þeir sem vilja sjá troðslur í leikjum ættu að kíkja á leiki hjá þessum drengjum, en fimm troðslur hafa litið dagsins ljós í þeim átta leikjum sem þeir hafa spilað. Ef fólk vill sjá e-ð bitastætt af þessum drengjum þá smellið á: http://youtu.be/A3_P7ax9Nwg

  

Áfram KEF.

 

Stoltir foreldrar drengja í MB. 11 ára.