Fréttir

11 titla tímabil að baki - 30 ár frá fyrstu titlunum
Karfa: Hitt og Þetta | 16. maí 2012

11 titla tímabil að baki - 30 ár frá fyrstu titlunum

Keppnistímabilið 1981-1982 stimplaði Körfuknattleiksdeild Keflavíkur sig með látum inn í íslenska körfuboltasögu, þegar fyrstu Íslands- og bikarmeistaratitlar  í yngri flokkunum félagsins komu í hús.

Þarna var þó ekki um einn eða tvo titla að ræða, heldur fór félagið hamförum og innbyrti heila fimm Íslandsmeistaratitla (mb yngri, mb. eldri, 5.fl.ka., 3.fl.ka. og 2. fl.ka.) á þessu herrans ári og tvo bikarmeistaratitla (4.fl.ka og 2.fl.ka).  Að auki sigraði meistaraflokkur félagsins í 1. deild karla og vann sér þar með sæti í fyrsta skipti í efstu deild, en þennan hóp kallaði Hrannar Hólm síðar við hátíðlegt tækifæri; liðið sem kom Keflavík á kortið

Helsta skýring þessarar stórbrotnu innkomu Keflvíkinga á körfuboltasviðið var vígsla íþróttahússins við Sunnubraut  haustið 1980 sem varð þess valdandi að bylting varð í allri aðstöðu innanhússíþróttanna.  Ungmenni þess tíma hreinlega „bjuggu“ á Sunnubrautinni sem varð á augabragði vinsælasti skemmtistaður bæjarins hjá fjölmennum hópi bæjarbúa og mögulegum framförum virtust engin takmörk sett.

Nú, sléttum 30 árum síðar er Körfuknattleiksdeild Keflavíkur enn við sama heygarðshornið og slær ekki mikið af enda að ljúka tímabili þar sem heilir 10 Íslands- og bikarmeistaratitlar eru komnir í hillurnar eftir tímabilið og 1 deildarmeistaratitill.

Afstaðið tímabil er þó ólíkt tímabilinu ´81-´82 að því leiti að nú eru flestir titlarnir að koma kvennamegin.  

Árangur Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í Íslandsmóti og bikarkeppni KKÍ keppnistímabilið 2011-2012 er;

  • Minnibolti stúlkna Íslandsmeistarar
  • Minnibolti drengja Íslandsmeistarar
  • 7. flokkur stúlkna Íslandsmeistarar og 7. flokkur drengja 2. sæti
  • 8. flokkur stúlkna Íslandsmeistarar og 7. fl. stúlkna tók 2. sæti
  • 8. flokkur drengja 3. sæti á Íslandsmótinu
  • 9. flokkur stúlkna Íslands- og bikarmeistarar
  • 9. flokkur drengja með silfur í bikarnum
  • 10. flokkur stúlkna Íslands- og bikarmeistarar
  • Stúlknaflokkur með 2. sæti á Íslandsmótinu
  • Drengjaflokkur í 3.-4. sæti á Íslandsmótinu
  • Unglingaflokkur kvenna Íslandsmeistarar
  • Meistaraflokkur kvenna deildarmeistarar
  • Meistaraflokkur karla bikarmeistarar

Heildarfjöldi Íslands- og bikarmeistaratitla Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur er því kominn á þessum 30 árum í 226 titla þegar teknir eru saman titlar í efstu deildum allra flokka.  Þetta gerir meðaltal upp á  7,5 titla á ári sem er hreint með ólíkindum og eitthvað sem allir Keflvíkingar sem unna íþróttinni geta verið stoltir af.  Þau félög sem koma næst í röðinni eru KR með 178 titla og Njarðvík með 107 titla.

"Liðið sem kom Keflavík á kortið", aftari röð f.v.: Sigurður Valgeirsson, Þorsteinn Bjarnason, Sigurður Sigurðsson, Viðar Vignisson, Hafþór Óskarsson, Tim Higgins þjálfari, Óskar Nikulásson og Jón Ben Einarsson.

Fremri röð f.v.: Hrannar Hólm, Stefán Arnarsson, Brynjar Jónsson, Jón Kr. Gíslason, Axel Nikulásson og Björn Víkingur Skúlason