13 stiga ósigur gegn Njarðvík í kvöld
Vel var mætt í Sláturhúsið í kvöld þegar grannarnir úr Njarðvík komu í heimsókn. Njarðvíkingar eru núverandi Íslandsmeistarar og hafa leikið liða best í deildinni í vetur. Keflavík hefur hins vegar átt á brattan að sækja, en liðið skartaði nýjum leikmanni, Tony Harris, og var töluverð eftirvænting meðal stuðningsmanna um hvort þessi leikur gæti orðið upphafið af góðum endi. Ekki byrjaði þó kvöldið vel fyrir okkar menn því Jón Norðdal þurfti að fara heim áður en leikur hófst, en hann var með flensu kappinn sá og var í engu standi til að spila.
En húsið var fullt og allt til reiðu. Leikurinn var í járnum til að byrja með, óvenju hægur miðað við þessi lið, en töluvert jafnvægi með liðunum framan af. Sebastian byrjaði vel fyrir okkar menn og skoraði grimmt, hélt okkur eiginlega inní leiknum sóknarmegin með góðri skotnýtingu. Hann skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta sem endaði 20-19 fyrir Njarðvík. Tony virkaði kvikur en reyndi kannski ekki mikið upp á eigin spýtur.
Undir lok fyrri hálfleiks fór sókn okkar manna að hiksta töluvert og mikið var um einstaklingsframtak. Njarðvíkingar léku stífa vörn og gáfu okkar mönnum engin auðveld skot, en á móti kemur að okkar menn unnu ekki nógu vel saman í sókninni til að losa hver fyrir öðrum. Njarðvík tók forystuna, ekki síst vegna góðrar frammistöðu Brentons sem átti stórgóðan leik. Í hálfleik var munurinn sjö stig, gestunum í vil, 41-34.
Seinni hálfleikur hófst á sama hátt og sá fyrri hafði endað, Njarðvíkingar voru fetinu framar og þeim tókst æ oftar að finna leið upp að körfu okkar manna. Áberandi var hversu grimmir þeir voru í sóknarfráköstum og hirtu þeir 14 slík í leiknum, en Keflavík tók aðeins 17 varnarfráköst. Það þýðir að gestirnir áttu næstum helming af þeim fráköstum sem féllu af okkar körfu, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Munurinn jókst og fór mest í 14 stig, en þegar síðast fjórðungur hófst var staðan 63-54 fyrir gestina.
Munurinn rokkaði síðan upp og niður og fór minnst niður í sex stig 66-60 og í þeirri stöðu var komið tækifæri fyrir okkar menn að koma sér aftur inn í leikinn, en ekkert gekk að skora. Magnús og Gunnar hittu aðeins úr 4 skotum af 21 og það virtist aðeins vera Sebastian sem gat skorað reglulega. Guðmundur Jónsson og Jeb Ivy gerðu síðan út um leikinn á lokamínútunum með 3ja stig skotum og niðurstaðan var 13 stiga ósigur, 70-83.
Sebastian átti sinn besta leik fyrir Keflavík, skoraði 32 stig og hirti 11 fráköst. Erfitt er að dæma Tony af þessum leik, hann hugsaði meira um að halda boltanum gangandi en að skora sjálfur og á eflaust eftir að finna taktinn betur. Greinilegt er þó að hann er fljótur og góður skotmaður, hann gerði 15 stig í leiknum. Því miður voru aðrir leikmenn flestir langt frá sínu besta í kvöld. Sverrir gerði ágæta hluti í vörn eins og oft áður og skoraði 8 stig, en Magnús var ekki nema skugginn af sjálfum sér, gerði einungis 3 stig.
Njarðvíkingar léku góða vörn og dugði það til sigurs. Brenton var þeirra besti maður, en Friðrik og Igor voru drjúgir í teignum. Alls hirtu Njarðvíkingar 47 fráköst í leiknum gegn 27 hjá okkar mönnum.
Það vantaði hraða og áræðni í Keflavíkurliðið og vissulega var slæmt að hafa ekki Jonna í leiknum. Nú eru fjórir leikir eftir og næstum öruggt að okkar hlutskipti verða að lenda í fimmta eða sjötta sæti deildarinnar. Eftir eru fjórir leikir, sá næsti í sunnudag gegn Hamri/Selfossi. Lokaspretturinn er gríðarlega mikilvægur því ef liðið ætlar að gera einhverjar rósir í úrslitakeppninni er vissara að ná taktinum sem fyrst. Nýi maðurinn á eftir að hressa upp á leikinn og vonandi kemst lestin á sporið í lokaátökunum.
ÁFRAM KEFLAVÍK!