Fréttir

Karfa: Karlar | 14. febrúar 2012

2 sigrar og 1 tap um "helgina" hjá Keflvíkingum

Það er aldeilis búin að vera fjörug leikjahelgi hjá Keflavíkurliðunum, en karlaliðið spilaði 2 leiki og kvennaliðið 1 leik.

Helgin byrjaði þó ekki byrlega hjá körlunum þar sem þeir lágu í valnum gegn Haukum.

Haukarnir byrjuðu leikinn betur en Keflvíkingar sneru leiknum sér í hag þegar vel var liðið á leikhlutann og leiddi 17-22. Stemming var í hópnum og héldu þeir uppteknum hætti í öðrum leikhluta, en leyfðu Haukamönnum að koma frískum inn eftir gott leikhlé og minnka muninn fyrir hálfleik í 30:41.

Keflvíkingar fóru að slaka aðeins og mikið á leik sínum þegar vel var liðið á 3. leikhluta og gáfu Haukamönnum gott færi á að komast aftur inn í leikinn - sem þeir nýttu sér til hins ítrasta. Þeir voru búnir að jafna leikinn í byrjun 4. leikhluta  og skyndilega var þetta orðinn spennuleikur. Keflvíkingar náðu að halda 1-3 stiga mun út leikhlutann, en Christopher Smith jafnaði leikinn á lokasekúndu leiksins úr vítaskoti og framlenging varð raunin. Framlengingin var í járnum og var vendipunktur í leiknum þegar Jarryd Cole klúðraði tveimur vítaskotum þegar innan við mínúta var eftir af leiknum. Haukamenn stóðu uppi sem sigurvegarar þegar lokaflautan gall 73-71.

Jarryd Cole var atkvæðamestur með 22 stig, Maggi Gun skoraði 14 og Kristoffer Douse 11.

 

Kvennalið Keflavíkur skellti sér í Reykjavík á sunnudeginum og spilaði þar gegn Fjölni. Leikurinn var ekki flókinn fyrir Keflavíkurliðið sem landaði sigri 69-93.

Bæði lið voru spræk í upphafi leiks og skiptust á forystunni. Keflavíkurstúlkur hrukku þó í góðan gír í öðrum leikhluta og náðu að skapa sér tæplega 20 stiga forskot á Fjölni. Staðan í hálfleik var 38-52 fyrir Keflavík.

Slakinn varð ekki mikill í leik Keflavíkurliðsins í seinni háfleik og leyfðu þær Fjölnisstelpum aldrei að koma sér almennilega inn í leikinn aftur. Eftirleikurinn var tiltölulega auðveldur hjá Keflavík og fögnuðu þær sigri 69-93.

Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir atkvæðamest með 30 stig. Jaleesa Butler skoraði 24 stig og Sara Rún Hinriksdóttir setti 16.

Með sigrinum styrktu stelpurnar sig á toppi deildarinnar, en þær hafa nú fjögurra stiga forskot á stöllur sínar í Njarðvík.

 

Svo lauk "helginni" með stórleik í kvöld þar sem Keflvíkingar tóku á móti KR-ingum. Mikið í húfi þar sem bæði lið keppast um annað sæti deildarinnar um þessar mundir. Keflvíkingar sýndu mikinn karakter eftir erfiðan tapleik á föstudeginum og uppskáru verðskuldaðan sigur 95-83.

Það byrjaði þó ekki byrlega hjá okkar drengjum þar sem þeir leyfðu KR-ingum að negla niður hverju skotinu á fætur öðru. KR-ingar náðu 11 stiga forystu undir miðbik leikhlutans, en þá fóru hlutirnar að ganga eilítið betur hjá Keflavík. Þeir tóku 12-0 áhlaup og sneru stöðunni í 11-22 í 23-22 og áhorfendur fækkuðu fötum í stúkunni af fögnuði. Skammur var fögnuðurinn, því KR-ingar komu hlaupandi til baka og sneru stöðunni sér í hag. Þeir gengu af velli í hálfleik með 31-37 forystu.

Keflvíkingar áttu hreinlega 3. leikhluta og sigruðu hann 35-17. Þeir voru komnir í Keflavíkurhaminn og fóru með 12 stiga forystu í 4. leikhluta. Þar var ekkert gefið undan og frekar bætt í ef eitthvað er. KR-ingar létu dómgæsluna fara í taugarnar á sér og Keflvíkingar héldu hreinlega áfram að spila flottan leik. Stíf pressa á köflum sló KR-inga af laginu og var mörgum eflaust hugsað til tíma Keflavíkurhraðlestarinnar. KR-ingar reyndu hvað þeir gátu en voru loks búnir að játa sig sigraða þegar lokamínútur leikhlutans liðu. Lokatölur 95-83 eins og fyrr segir.

Með sigrinum skutu Keflvíkingar sér í annað sæti deildarinnar með 22 stig. KR, Stjarnan og Þór Þorlákshöfn fylgja fast á eftir þeim með 20 stig öll.