5. sigurinn í röð gegn Haukastúlkum
Stelpurnar í Keflavíkurliðinu gerðu sér lítið fyrir í kvöld og sigruðu Haukastúlkur örugglega í Toyota Höllinni, en lokatölur leiks voru 79-49. Keflavík byrjaði af krafti og áttu 1. leikhluta algjörlega, þrátt fyrir að vera langt frá sínum besta leik. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-8. Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, en klaufaleg boltameðferð og mörg mistök í sóknarleik hjá Keflavík gerði það að verkum að Haukar náðu að komast betur inn í leikinn, þó þær hafi aldrei náð að saxa almennilega á forskotið. Staðan í hálfleik var 40-23. Seinni hálfleikur spilaðist á svipuðum nótum og voru Haukastelpur aldrei nálægt því að komast inn í leikinn. Ungu stelpurnar í Keflavík fengu svo að spreyta sig í lokaleikhlutanum og stóðu sig með prýði.
Hjá Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir atkvæðamest með 18 stig og 8 fráköst. Birna Valgarðsdóttir skoraði 15 stig og Jacqueline Adamshick skoraði 14 stig og tók 10 fráköst. Hjá Haukum var Íris Sverrisdóttir með 11 stig.
Keflavík og Hamar sitja í efsta sæti deildarinnar, en bæði lið hafa unnið sína fyrstu 5 leiki.
Keflavíkurstúlkur eiga næsta leik í Grindavík á miðvikudaginn klukkan 19:15.