Fréttir

52 stig hjá Sigurþóri Inga og Keflavík í A-riðil
Karfa: Yngri flokkar | 10. febrúar 2013

52 stig hjá Sigurþóri Inga og Keflavík í A-riðil

Körfudrengir í 10. flokki Keflavíkur (15 og 16 ára drengir)  léku um helgina þriðju umferð Íslandsmótsins og fór umferðin fram hér í Keflavík.

Drengirnir léku fjóra leiki, unnu þrjá og töpuðu einum frekar óvænt, en tapið var á móti Tindastól sem tapaði öllum sínum leikjum nokkuð stórt, en unnu okkar drengi með 20 stiga mun. Vinirnir tveir Tryggvi og Matti heltust úr lestinni á fyrri deginum, en Tryggvi var settur í gips, þar sem flísaðist bein úr öðrum fætinum og Matti nefbrotnaði, en þeir fara í nánari skoðanir í vikunni og vonumst við að sjá þá á körfuvellinum sem fyrst. 
 

Keflavík - ÍR.
Fyrsti leikurinn var á móti ÍR og var leikurinn jafn allan fyrri hálfleikinn en í þriðja leikhluta náðu okkar drengir 10 stiga forskoti sem þeir misstu svo niður í síðasta leikhlutanum, en náðu að bíta í skjaldarrendur og vinna með einu stigi 57-56, þar sem Knútur Eyfjörð setti niður erfitt skot úr horninu þegar ein og hálf sekúnda lifði leiks. ÍR-ingar tóku leikhlé, en náðu ekki að skora og sigurinn Keflavíkurdrengja.

Keflavík - Tindastóll.
Seinni leikurinn fyrri mótsdaginn var á móti Tindstælingum og munurinn í hálfleik aðeins þrjú stig. 40-37. Í seinni hálfleik var sem sjón Tindstælinga hefði breyst og körfuhringurinn orðið á stærð við sundlaug því þeim virtist ómögulegt að hitta ekki. Keflavíkurdrengjum var eðlilega brugðið og fundu engin svör við stórleik Tindstælinga. Unnu norðanmenn seinni hálfleikinn 18-40 og lokastaða leiksins því 58-77. 
Tindstælingar settu 10 þriggja stiga körfur í öllum fjórum leikjum mótsins og þar af átta bara í leiknum við Keflavík. Setti þetta okkar drengi og þjálfara heldur betur á jörðina og menn ákveðnir að koma ákveðnir til leiks seinni daginn.


Þegar seinni leikdagurinn hófst var staðan sú fyrir Keflavíkurdrengi sú að þeir gátu tapað báðum leikjum og þá hefðu Tindstælingar, sem einnig höfðu aðeins einn sigur, haft innbyrðis viðureignina á okkur og Keflavík farið niður í C-riðil. Einnig gátu drengirnir unnið báða leiki dagsins og farið upp í A-riðil og leikið síðasta mót vetrarins á meðal fimm bestu liða landsins.

Keflavík - Stjarnan.
Eftir ósigurinn gegn Tindstælingum mættu drengirnir í Keflavík mjög einbeittir og ákveðnir í að láta finna fyrir sér á körfuvellinum. Krafturinn í vörninni og hraðaupphlaup skiluðu drengjunum þrettán stiga forystu í hálfleik. Stjörnudrengir voru ekkert á þeim buxunum að láta þetta yfir sig ganga og náðu að jafna leikinn og komst tveimur stigum yfir (53-55) í upphafi síðasta leikhlutans. Keflavíkurdrengir breyttu þá um varnaraðferð sem setti Stjörnudrengi út af sporinu og skoruðu þeir aðeins fjögur stig í síðasta leikhlutanum og lokatölur leiksins 76-57.

Nú var ljóst að lokaleikur mótsins við Fjölnisdrengi yrði hreinn úrslitaleikur um sæti í A-riðli.

Keflavík - Fjölnir.
Fjölnisdrengir byrjuðu leikinn með að hitta eins og lottóvinningur væri í boði fyrir hvert skot og voru fyrstu 9 stigin þriggja stiga körfur og urðu stigin 27 úr þriggja stiga skotunum áður en flautað var til hálfleiks. Þrátt fyrir þessa flugeldasýningu gekk Keflavíkurdrengjum ágætlega að svara og gerðu tvö góð áhlaup og munurinn því aðeins tvö stig í hálfleik. Munurinn hafði þó verið mestur fjórtán stig í fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleik tóku Fjölnismenn að þreytast og aðeins dró úr hittni,  en Fjölnisdrengir bættu engu að síður við sex þriggja stiga körfum og leiddu með sjö stigum eftir þrjá leikhluta. Í lokaleikhlutanum breyttu Keflavíkurdrengir um varnartaktík og afvegaleiddu Fjölnisdrengina sem töpuðu loka leikhlutanum 32-16 og sigurinn því okkar drengja og sæti í A-riðli tryggt. Lokastaða leiksins 84-75.
Þessa leiks verður sennilega minnst fyrir það að Sigurþór Ingi Sigurþórsson leikmaður Keflavíkur, setti 52 stig á Fjölnisdrengina. Já fimmtíu og tvö stig. Segi það og skrifa, en það gerist ekki oft að keflvíkingur skori yfir 50 stig í leik hér á heimavelli og það í úrslitaleik. En drengurinn skoraði 36 stig úr tveggja stiga skotum, 9 stig úr þriggja stiga skotum og 7 stig komu af vítalínunni.



Sigurþór Ingi og Sigurþór pabbi hans á æfingu með foreldrum nú í janúar s.l.


Öll úrslit mótsins.