Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 6. apríl 2011

7. flokkur drengja braust til dáða og endaði Íslandsmótið með silfri

Lokaumferð Íslandsmóts 7. flokks karla fór fram helgina 26.-27. mars í DHL-höll þeirra KR-inga. Keflavíkurliðið hefur verið að standa sig prýðilega í vetur, en tindarnir hafa helst verið 2 sem erfitt hefur verið að klífa það sem af er tímabilinu.

 

Þar ber fyrst að nefna fyrnasterkt lið KR, en þeir hafa ekki tapað leik í 2 ár og unnið flesta sína leiki mjög sannfærandi. Einnig hefur gengið erfiðlega að sigra granna okkar í Njarðvík, en á þeim þremur árum sem þessi árgangur hefur leikið á Íslandsmóti, hafa okkar drengir aldrei náð að sigra þá grænu. Það verður þó að segjast að þeir hafa lagt vel á sig við æfingar og mikilar framfarir hafa orðið hjá hverjum og einum. Einnig hefur æfingahópurinn hefur styrkst mikið á s.l. 2 árum eftir að  gríðareg fjölgun varð haustið 2009 og nú er farin að myndast mikil eining meðal strákanna.

 

Eftir 3. umferð sem fram fór í Garðabæ í febrúar, var einhugur í mönnum að gera tilkall til verðlauna. Við vorum eina liðið sem stóð eitthvað í KR-ingum þá og nú skyldi gera enn betur og leggja Vesturbæjarpeyjana af velli. Fyrsti leikur okkar var einmitt gegn KR og því miður fór ekki eins og upp var lagt, en drengirnir stóðu sig með stakri prýði engu að síður. Þegar við vorum að komast inn í leikinn fengum við kalda vatnsgusu framan í okkur.Róbert skoraði úr fallegu lagskoti þegar 1 sekúnda var eftir af fyrri hálfleik, KR-ingar taka boltann inn og leikmaður þeirra hendir boltanum yfir allan völlinn og beint ofan í hreiðrið, lyginni líkast. Lokatölur leiksins, 51-30 KR í vil.

Stigaskor Keflavíkur: Arnór Ingi 10, Marvin 9, Róbert og Brynjar Bergmann 4, Arnór Elí 3.

 

Nú þurfti bara að girða allhressilega brókina, því næsti fjallstindur var handan við sjóndeildarhringinn. Eftir smá hughreystingar frá foreldrum, sem fjölmenntu í Vesturbæinn, var komið að Njarðvík. Þvílíka grimmd og ákveðni hefur undirritaður sjaldan séð, drengirnir fóru hreint á kostum og vert er að geta þáttar Ísaks Ólafssonar sérstaklega, en þessi hávaxni leikmaður hefur verið að taka gríðarlegum framförum. Hann hreinlega átti teiginn og skoraði margar fallegar körfur auk þess að taka ógrynni frákasta. Á töflunni mátti sjá 7-0 í fyrsta leikhluta og í upphafi síðari hálfleiks 26-13. Það hefur reynst okkur erfitt að halda forystu í hörkuleikjum, en strákunum tókst það að þessu sinni, þó tæpt hafi það verið, lokatölur 36-32. fyrir Keflavík og fyrsti sigur á Njarðvík staðreynd í þessum aldursflokki og bara á besta tíma.

Stigaskor Keflavíkur: Ísak 13, Arnór I 10, Marvin og Haukur 5 og Róbert 3.

 

Við vissum því á þessum tímapunkti, að með sigri á Grindavík og Stjörnunni yrði silfrið okkar. Spenntir og pínu þreyttir byrjuðum við sunnudaginn á hörkuleik við Grindavík, sem hefur á að skipa tveimur mjög öflugum leikmönnum og duglegu liði. Spennan var alveg að fara með viðstadda, ekki gott svona árla morguns á hvíldardegi fjölskyldunnar. En sigur vannst með minnsta mun 38-37 eftir sannkallaðan háspennuleik.

Stigaskor Keflavíkur: Marvin 16, Brynjar og Ísak 5, Haukur 4, Arnór , Arnór E ,Atli,Andri og Róbert 1.

 

Þar sem allt var farið að ganga eftir bókinni var ekki um annað að ræða en að leggja Stjörnuna af velli og ná í silfrið. Drengirnir mættu svellkaldir til leiks og léku á alls oddi, spiluðu agaðan varnarleik og voru leiddir skynsamlega áfram í sóknarleiknum af leikstjórnanda sínum Arnóri Inga.  Leiknum lyktaði með glæstum sigri Keflvíkinga, 46-29.

Stigaskor Keflavíkur: Marvin 16, Arnór I 13, Haukur 7, Brynjar 4, Róbert 3, Elmar 2 og Ísak 1.

 

Frábær árangur eins og áður segir og gríðarleg framför hjá þessum vösku piltum í vetur. Þeir sem léku um helgina voru: Geirmundur Eiríksson, Árni Steinn Sigurðsson, Arnór Ingi Ingvason, Atli Brynleifsson, Arnór Elí Guðjónsson, Sigurður Guðlaugsson, Marvin Guðmundsson, Haukur Júlíusson, Brynjar B. Björnsson, Elmar Þórisson, Ísak Ólafsson, Róbert Jónsson og Andri Ingvarsson.

 

Fyrir mína hönd og Guðmundar Skúlasonar aðstoðarþjálfara.

 

Gunnar H. Stefánsson, þjálfari 7. flokks drengja.

 

Keflavík - 2. sætið og silfur á Íslandsmótinu í 7. flokki drengja 2011 (mynd G.Sigurjóns)