8. flokkur stúlkna - 4 leikir - 4 sigrar
Þriðja umferð Íslandsmótsins var haldin helgina 22. – 23. janúar á Flúðum. Það voru heimamenn í Hruna sem höfðu veg og vanda af mótinu. Mikill fjöldi Keflvíkinga fylgdu stúlkunum og var góð stemning í hópnum.
Stúlkurnar hófu leik laugardaginn 22. janúar kl. 14:00 við heimamenn. Keflavík bar sigur úr bítum í þeirri viðureign 60 – 13. Eins og lokatölur gefa til kynna var mjög góð barátta í liðinu sem spilaði hörku varnar og sóknarleik. Elfa Fals var í banastuði en hún stal boltanum oft og skapaði auðveld stig í körfu andstæðingana þegar stúlkurnar komust í einföld sniðskot.
Seinni leikurinn á laugardeginum var kl. 17:00 gegn KR og vannst hann 58 – 13. Þar bar helst til tíðinda að leikurinn var látinn rúlla fljótt og vel svo stelpurnar og fjölskyldur þeirra kæmust að sjá síðari hálfleik Ísland – Þýskaland á HM í handbolta. Hópurinn fór á Kaffi Sel í pizzahlaðborð og horfði á leikinn á breiðtjaldi þar. Eftir það var haldið í sumarbústað þar sem stelpurnar fóru í heita pottinn og létu líða úr sér eftir daginn. Stelpurnar sváfu svo allar saman í félagsheimilinu, voru stilltar og prúðar og sofnaðar um miðnætti.
Sunnudaginn 23. janúar var fyrsti leikur við Grindavík kl. 11:00. Hann vannst 48 - 22. Þetta var spennuleikur frá upphafi til enda og mjög hraður. Eitthvað voru okkar stúlkur pirraðar í leikslok og vart sást bros á vör. Þessu var snarlega kippt í liðinn með kaldri vatnsgusu og stúlkurnar tóku gleði sína á ný.
Síðasti leikurinn var svo kl 13:00 við Njarðvík og vannst hann 46 – 13. Stórgóður leikur hjá stelpunum enda með bros á vör og höfðu rosalega gaman af því sem þær voru að gera. Tólf stig hjá stúlkunum komu með flottum 3 stiga skotum. Sanngjarn sigur í höfn, sá fjórði þessa helgina og sá tólfti í röð á þessu Íslandsmóti. GLÆSILEGT STÚLKUR!!
Stigaskor dreifðist nokkuð jafnt á stelpurnar þessa helgina, allar fengu að spila, vítahittni var ágæt og baráttan var til staðar. Ekkert smá flottar stelpur sem eiga framtíðina svo sannarlega fyrir sér.
Takk fyrir skemmtilega helgi stelpur og foreldrar,
Áfram Keflavík