8. flokkur stúlkna Íslandsmeistarar 2011
4. umferð Íslandsmótsins var leikin helgina 11. – 13. mars í Keflavík. Leikið var í Heiðarskóla föstudaginn 11. mars og umferðin síðan kláruð sunnudaginn 13. mars í Toyotahöllinni við Sunnubraut.
Stúlkurnar mættu KR í fyrsta leik og kunnu greinilega vel við sig í Heiðarskóla enda nota þær salinn til æfinga um helgar. Sigur vannst 63 – 11. Flott byrjun og gaf fyrirheit um það sem átti eftir að koma.
Seinni leikur á föstudagskvöldið mættu þær Grindavík. Hörkuleikur eins og venjulega þegar þessi lið mætast. Sigur vannst 44 – 22. Minna skorað en í fyrsta leik og það sást greinilega að stúlkurnar ekki vanar að keppa leik kl. 21:00 á föstudagskvöldi, orðnar aðeins þreyttar og lúnar.
Sunnudagurinn 13. mars rann upp og fyrsti leikur var við Hauka kl. 12:00. Sigur vannst 54 – 18 en hinn stórgóði þjálfari liðsins var ekki kátur. Honum fannst stelpurnar utan við sig og ekki almennilega vaknaðar. Hafði hann á orði í einu leikhléinu að þær spiluðu eins og „búðingar“. Ég hef aldrei séð búðinga spila körfubolta og hvað þá vinna andstæðing sinn með 40 stigum en það var allavega staðreyndin að þessu sinni. Eftir smá fund eftir leik með þjálfara var slakað aðeins á enda klukkustund í næsta leik.
Síðasti leikur dagsins var gegn UMFN. Ekki var um eiginlegan úrslitaleik að ræða, aðeins var nóg að láta allar spila og ná í aukastigið, það var nóg til að verða Íslandsmeistarar. En það var ekki nóg fyrir stúlkurnar. Þær mættu með stríðsmálningu í andlitinu og voru heldur betur tilbúnar í slaginn. Sigur vannst 58 – 19 í kröftugum og vel útfærðum leik. Nokkrar 3 stiga körfur lágu, baráttan og viljinn til að tryggja titilinn skein úr stríðsmáluðum andlitum stúlknanna.
Stúlkurnar eru vel að þessu komnar enda með langbesta hópinn. Duglegar að æfa, samviskusamar, miklar vinkonur og með frábæran þjálfara. Ekki skemmir að góður hópur foreldra stendur að baki þeim, foreldrar sem mæta á alla leiki og hvetja þær áfram.
Fullt af myndum frá leikjum vetrarins eru á heimasíðu stúlknanna.
INNILEGA TIL HAMINGJU STÚLKUR! ÁFRAM KEFLAVÍK