8. flokkur stúlkna Íslandsmót
Stúlkurnar í 8. flokki kvenna spiluðu á fyrsta fjölliðamóti vetrarins í Grindavík um helgina. Liðin sem tóku þátt ásamt Keflavík voru Grindavík, Njarðvík, KR og Haukar. Okkar stúlkur í Keflavík voru duglegar að æfa sig í sumar og greinilegt að sumaræfingar ásamt styrktar- og hlaupaþjálfun skilaði sér inná völlinn. Leikirnir unnust allir með miklum mun og gaman var að sjá hversu miklum framförum margir okkar leikmanna hafa tekið og unun að sjá hversu skemmtilegt þeim finnst að spila körfubolta, en það er aðalatriðið.
Varnarleikurinn var frábær og áttu mótherjar Keflvíkinga oft í mesta basli með að komast upp með boltann og ná skoti á körfuna. Leikmenn eru einnig að bæta sig í fráköstum og tækni og leikskilningur almennt að batna. Frábært að sjá svo unga leikmenn spila saman, gefa á milli og vera ekki að hugsa um það hver skorar mest. Þetta er eitthvað sem erfitt er að kenna en margar í liðinu hafa þetta í sér og sýndu það um helgina. Liðið er annars blanda af frábærum stúlkum sem búa til frábært körfuboltalið og ætla sér stóra hluti í framtíðinni. En það er langur vetur framundan, þrátt fyrir góða sigra um helgina þarf að halda vel á spöðunum, halda áfram að æfa vel og hafa gaman af hlutunum. Flott hjá ykkur stelpur – til hamingju með sigrana. Áfram Keflavík?
Á heimasíðu stúlknanna má sjá myndir frá leikjum helgarinnar.
Niðurstöður leikja:
Keflavík – Haukar 44 – 5
Keflavík – Grindavík 58 – 12
Keflavík – KR 48 – 22
Keflavík – Njarðvík 55 - 3