Fréttir

9. flokkur drengja sigraði á körfuboltamóti á Spáni
Karfa: Yngri flokkar | 22. júlí 2016

9. flokkur drengja sigraði á körfuboltamóti á Spáni

Vikuna 2. – 9. júlí fóru drengir í 9. flokki Keflavíkur í körfubolta á mót á Spáni, nánar tiltekið á Lloret de mar.  Spilaðir voru 5 leikir og tókst okkar drengjum að leggja alla mótherja að velli.

Fyrsti leikurinn var á sunnudeginum 3. júlí gegn Saronno B frá Ítalíu. Eftir mikla baráttu tókst okkar drengjum að sigra 69 – 58. Góður sigur í fyrsta leik á erlendri grundu.

Leikur tvö var gegn Saronno A, einnig frá Ítalíu. Eitthvað voru Ítalar að reyna að rugla okkar drengi í ríminu með þessu A og B því okkur tókst að vinna A liðið 80 – 20. 

Þriðji leikur var á móti heimamönnum í Lloret.  Fá orð um þann leik, en hann endaði 103 – 19 fyrir KEF.  Í þessum leik skoruðu okkar menn flautukörfu frá miðju eftir pöntun frá þjálfaranum.  Drengir hlýða þjálfaranum í einu og öllu.

Fjórði leikurinn var gegn CTC Creuse frá Frakklandi, en þetta lið var með turnana tvo innanborðs.  Drengir létu þessa turna ekki trufla sig og unnu leikinn 100 – 39.

Síðasti og jafnframt úrslitaleikurinn var gegn Saronno B og líkt og fyrri leikurinn gegn þeim var um hörkuleik að ræða.  Eftir mikla baráttu unnum við leikinn 59 – 50 og fallegur bikar var í höfn.

Drengirnir sem voru í þessari ferð og spiluðu leikina voru Andri Þór, Aron Smári, Arnar Geir, Bergur Daði, Magnús Fallegastur, Nói Sig og Sigurður Hólm.  Þjálfari drengjana er MG 10 og var hann með för og var frábær ferðafélagi.  Það er í lagi að nefna það sex pabbar voru líka með í þessari ferð.

Drengirnir voru Keflavík til sóma í þessari ferð bæði innan vallar sem utan og var haft á orði hjá öðrum á mótinu hversu góðir þessir drengir voru hvar sem þeir komu.  Leikir drengjanna voru sýndir í beinni útsendingu á Facebook og sá einn pabbinn um þá framkvæmd og fékk marga plúsa fyrir það hjá mömmunum sem sátu heima.

Önnur lið frá Íslandi sem tóku þátt í þessu móti voru: Njarðvík, Haukar og Þór Akureyri.

Til hamingju drengir með frábæra viku á Spáni, þið stóðuð ykkur frábærlega, pabbarnir voru að rifna úr stolti með ykkur.  Höldum áfram á sömu braut.