9. sigur Keflavíkurstúlkna í röð
Keflavíkurstúlkur unnu sinn 9. leik í röð í Iceland Express deild kvenna í kvöld gegn Valsstúlkum, en leikið var í Toyota Höllinni. Lokatölur leiksins voru 91-68 og eru Keflavíkurstúlkur á fljúgandi siglingu nú rétt fyrir jólafríið.
Það voru Valsstúlkur sem settu niður fyrstu körfu leiksins, en sú forysta dugði ekki nema í um 20 sekúndur. Þá hrökk Keflavíkurmaskínan í gang og náðu þær yfirhöndinni. Leikurinn var í höndum Keflavíkur, en Valur gerði smá nart-tilraun í byrjun annars leikhluta og minnkaði muninn í eitt stig. Lengra komust þær ekki og var Keflavík meira og minna með um 20 stiga forskot út leikinn.
Jaleesa Butler átti stórleik í kvöld og skoraði 35 stig, ásamt því að hirða 18 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 16, Pálína Gunnlaugsdóttir 13 og Birna Valgarðsdóttir 12.
Keflavíkurstúlkur sitja einar á toppnum IE deild kvenna með 18 stig eftir 10 leiki. Njarðvíkurstúlkur koma næstar með 14 stig eftir jafnmarga leiki. Þessi tvö lið mætast í næsta leik sem spilaður verður í Ljónagryfjunni, en þar má búast við hörkuslag.
Eftirfarandi leikir eru á döfinni hjá Keflavíkurstúlkum fyrir jólafrí:
Njarðvík - Keflavík - 4. des kl. 16:30
Keflavík - Haukar - 7. des kl. 19:15
Snæfell - Keflavík - 14. des kl. 19:15
Keflavík - KR - 17. des kl. 16:30