Að leikslokum hjá mfl. kvenna
Talsverðar breytingar voru á liðinu frá tímabilinu á undan. María Ben ein af bestu körfuboltakonum landsins ákvað að söðla um og skella sér í skóla í USA. Þær Birna og Svava voru í barneignarfrí og ekki var gert ráð fyrir þeim á tímabilinu. Ákveðið var að semja aftur við Keshu sem átti mjög gott tímabil árið á undan og Jón Halldór var áfram þjálfari liðsins. Samið var við reynsluboltann Önnu Maríu til að aðstoða Jonna. Pálína Gunnlaugsdóttir gekk til liðs Keflavík frá Íslandsmeisturunum og einnig Lóa Dís Másdóttir, ung og efnileg stelpa.
Stelpurnar byrjðu mótið á að komast í undanúrslit í Powerade-bikarnum með öruggan sigur á KR. Í undanúrslitum sigruðu þær svo Grindavík sannfærandi, 92-59 og átti Bryndís stórleik og skoraði 35.stig. Greinlegt var að miklu munaði að Kesha mætti til landsins í byrjun september og leikmannahópurinn því klár snemma.
Þær mættu svo Haukum í úrslitaleiknum. “ Körfuboltavertíðin fór vel af stað í Keflavík rétt eins í fyrra, því stelpurnar urðu Poweradebikarmeistarar í dag eftir frekar auðveldan sigur á Haukastelpum, 95-80. Haukar byrjuðu betur en þær náðu ágætri forystu í fyrsta leikhluta og virtust harðákveðnar í að verja titilinn. Keflavík komst þó aftur inn í leikinn með frábærum leik í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik með 4 stigum. Haukar urðu fyrir áfalli í upphafi seinni hálfleiks þegar Kiera Hardy meiddist á ökkla og lék ekki meira með eftir það. Við þetta riðlaðist sóknarleikur Hauka sem hafði verið hálf vandræðalegur á köflum en pressa Keflvíkinga skilaði þeim mörgum stolnum boltum sem þær skiluðu í körfuna.
Svo fór að lokum að Keflavík tryggði sér öruggan 95-80 sigur í leiknum og leikur liðsins nú í byrjun tímabils lofar svo sannalega góðu. TaKesha Watson átti frábæran leik, skoraði 36 stig, sendi 7 stoðsendingar og stal 6 boltum í leiknum. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 15 stig og tók 10 fráköst og Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 10 stig og sendi 6 stoðsendingar.”
Stelpurnar unnu sinn annan bikar á tímabilinu þegar þær burstuðu lið Hauka í meistarakeppni kkí , 84-52.
Deildin fór vel af stað og unnust fyrstu 8. leikirnir. Fyrsta tap vetrarins kom í Grindavík 1. desember en í byrjun nóvember var liðið fyrir miklu áfalli þegar Bryndís meiddist og lék ekki meira með liðinu á tímabilinu. Þannig voru báðir miðherjarnir úr liðinu en óreyndari stelpur stigu upp og allir leikmenn liðsins lögðu meira á sig. Susanne Biemer bættist í leikmannahóp Keflavíkur eftir áramótin og enn eitt áfallið skall á liðið þegar Marín meiddist. Marín var frá allt tímabilið rétt eins og Bryndís. Góðu fréttirnar voru þó þær að Birna kom aftur inn í hópinn eftir barneignarfrí, miklu fyrr en nokkur hafði þorað að vona.
Eftir tapið gegn Grindavík komu góðir sigrar gegn KR, Hamar, Fjölni og Val. Einnig komust þær í 8. liða úrslit í Lýsingarbikarnum eftir auðveldan sigur á Njarðvík. Slæmur kafli kom svo í framahaldinu þegar þær töpuðu gegn KR, Haukum og Val. Þær náðu þó fram hefndum á Val nokkrum dögum síðar er þær lögðu þær, 61-71 og komust þar með í undanúrslit í Lýsingarbikarnum. Keflavíkurliðið sigraði svo 8. síðustu leiki sína í deildinni en vonbrigði tímabilsins var þegar þeim mistókst að komast í bikarúrslitaleikinn. Undanúrslitaleikurinn fór fram í Grindavík og töpuðu stelpurnar með 8. Stigum, 66-58.
Deildarbikarinn var svo þriðji titill stelpanna í ár en þær sigruðu deildina með nokkrum yfirburðum eftir þennan glæsilega endasprett. 8. stig skildu að Keflavík og næsta lið KR, en Keflavík endaði með 40.stig, 20 sigra og 4.töp.
Úrslitakeppnin var glæsileg því þær byrjðu á að sparka Íslandmeisturum Hauka út 3-0 og mættu KR í úrslitaeinvíginu. Fyrsti leikurinn var mjög spennandi og grípum við hér niður í frásökn frá leiknum “Þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka var staðan 82-78. Keflavík missti boltann í næstu sókn og svo gerðu KR-ingar eitt stig af línunni, 82-79. Næsta sókn Keflavíkur rann einnig út í sandinn og á hinum enda vallarins stökk Guðrún Gróa upp í nánast vonlaust stökkskot af endalínunni með tvo varnarmenn Keflavíkur í sér. Skotið rataði rétta leið með einhverjum ólíkindum og staðan 82-81 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka. Næsta Keflavíkursókn fékk snöggan enda er heimamenn köstuðu boltanum frá sér. KR hélt til sóknar og 22 sekúndur eftir af leiknum og áttu nýliðarnir þess kost að stela leiknum. Skot KR geigaði, Keflavík náði frákastinu og fagnaði loks naumum sigri í hjartastyrkjandi leik.”
Þær komust svo í þægilega 2-0 forustu með góðum, 71-84 sigri í DHL-höllinni og gátu klárað dæmið á heimavelli og það á föstudegi, nokkuð sem ekki hafði verið möguleiki lengi. Mikil stemming var í Toyotahöllinni þetta föstudagskvöld og sjaldan eða aldrei fleirri áhorfendur mætt á kvennakörfuboltaleik í Keflavík. Þeir urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum því leikurinn var stórskemmtilegur og spennandi. Hér er frásökn úr leiknum” KR byrjaði að saxa forskot Keflvíkinga um leið og leikhlutinn hófst og Jón Halldór upp á því að taka leikhlé eftir aðeins 23 sekúndur. Keflvíkingar komust á flug á ný og um miðbik leikhlutans var munurinn kominn í 8 stig 79-71. Næstu mínútur voru æsispennandi og Candace Futrell jafnaði leikinn með tveimur vítaskotum 87-87 þegar 51 sekúnda var eftir. Keflavík hélt í sókn og besti leikamaður vallarins Kesha Watson skoraði fyrir Keflavík 89-87. Rannveig Randversdóttir stal boltanum í næstu sókn og KR-ingar brutu á Keshu Watson þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum. Setti hún vítaskotin sín ofaní og munurinn kominn í fjögur stig 91-87. KR sækir fram völlinn og Guðrún Ámundadóttir setur þriggja-stiga körfu og munurinn 1 stig 91-90. Keflavík heldur í sókn en missir boltann þegar dæmd er sóknarvilla á Rannveigu Randversdóttur. KR fær innkast á miðju með tvær sekúndur eftir á klukku. Guðrún Þorsteinsdóttir fær boltann og reynir erfitt þriggja-stiga skot en geigar og Keflavík hafði eins stigs sigur.
Stelpurnar urðu því Íslandsmeistarar eftir 6-0 úrslitakeppni og þær unnu einnig 8. síðustu leikina í deildinni og því 14. leiki alls í röð !!!! Frábært tímabil á enda og aðeins Lýsingarbikarinn rann þeim úr greipum. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná þeim öllum á næsta tímabili. Áfram Keflavík.
Skrifað af Smára