Fréttir

Karfa: Karlar | 23. mars 2011

Ævintýraleg endurkoma Keflavíkur - komnir í 4-liða úrslit!

Keflvíkingar eru komnir áfram í 4-liða úrslit Iceland Express deildar karla eftir einn ævintýralegasta sigur sem sést hefur í íþróttahúsinu í Keflavík. Leikurinn fór í framlengingu og Keflvíkingar reyndust sterkari á lokasprettinum og lönduðu sigri 95-90 í framlengdum leik.

Það voru Keflvíkingar sem byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 8-0 eftir rétt rúmar 2 mínútur. ÍR-ingar sýndu þó mikinn karaktur með því að koma sterkir til baka og ná forystu í leiknum. Svo fór að þeir voru yfir eftir 1. leikhluta 17-19. Í öðrum leikhluta var í sjálfu sér mikið jafnræði með liðunum, en engu að síður virtist að viljinn væri einfaldlega sterkari hjá ÍR-ingum, sem sýndu fantagóðan leik og fóru með forystu í hálfleikinn, 41-45.

Í seinni hálfleik gekk lítið upp hjá Keflavík og voru þeir í því að elta ÍR að stigum, þrátt fyrir að ÍR hafi ekki verið að spila stórkostlega vel. Það var því Keflavík til happs að ÍR náði aldrei almennilega að rasskella Keflavík fyrir stanslaus klúður í sókninni, heldur settu inn fá stig hér og þar. Engu að síður var ótrúlegt að horfa upp á jafn vel mannað lið og Keflavík, vera að henda boltanum út og suður í sókninni, sem endaði í ófáum tilfellum í höndum ÍR-inga. Þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af leiknum, þá voru ÍR-ingar 10 stigum yfir og margir eflaust búnir að afskrifa Keflvíkinga, sem höfðu ekki fram að þessu verið sannfærandi inni á vellinum. Smám saman tókst þeim þó að saxa á forskotið og svo fór að Keflvíkingar héldu í sókn þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Magnús Þór Gunnarsson reyndi 3ja stiga skot sem geigaði og hver annar en Thomas Sanders stökk lengst upp í rjáfur í frákastið, lenti og stökk svo upp í lay-up með körfu. Leikurinn orðinn jafn og rúmar 2 sekúndur eftir. Þessar 2 sekúndur dugðu ÍR-ingum ekki til að gera körfu. Leikurinn fór því í framlengingu.

 Keflavík kom með bullandi sjálfstrausti í framlengingu, enda búnir að vinna upp ótrúlegt forskot ÍR allan leikinn. Keflavík setti fyrstu 8 stigin í framlengingunni og var það bylmingshögg á ÍR. Þeir settu þó niður mikilvægar körfur á réttum augnablikum. Þó má gagnrýna Keflvíkinga að hafa ekki notað skotklukkuna sér til góðs og reynt tvo nokkuð opin 3ja stiga skot þegar nóg var eftir af skotklukkunni.  Keflavík leiddi engu að síður með 3 stigum þegar ÍR fór í sókn og 25 sekúndur eftir. Andrija Ciric tókst þá að stela boltanum og fiska villu. Hann fór á vítalínuna og setti bæði niður. Leikurinn búinn og Keflvíkingar hrósuðu sigri.

ÍR-ingar mega vera stoltir af sinni spilamennsku í kvöld og margir vilja meina að þetta hafi verið stolinn sigur. Þó er það þannig í boltanum að leikurinn er ekki úti fyrr en lokaflautan gellur. Það sannaði sig í kvöld og Keflvíkingar tryggja sér sæti í 4-liða úrslitum gegn KR.

Stigaskor kvöldsins:

Keflavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 26/5 fráköst, Andrija Ciric 21/6 fráköst, Thomas Sanders 15/9 fráköst/6 stolnir, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 8, Gunnar Einarsson 3, Jón Nordal Hafsteinsson 2/4 fráköst.

ÍR: Sveinbjörn Claessen 19, Nemanja Sovic 18/7 fráköst, Kelly Biedler 15/13 fráköst, James Bartolotta 14/4 fráköst, Eiríkur Önundarson 11/4 fráköst, Níels Dungal 11, Hjalti Friðriksson 2.