Fréttir

Körfubolti | 21. apríl 2004

Af þjálfurum og leikmönnum Keflavíkur

Nú er leiktíðinni formlega lokið og aðeins eftir að halda aðalfund deildarinnar og ársþing KKÍ. En vissulega eru menn þegar byrjaðir að huga að næstu leiktíð. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá ráðningu þjálfara fyrir karla- og kvennalið félagsins á næstu dögum og í framhaldi af því verður reynt að tryggja áframhaldandi veru leikmanna liðanna. Fundað verður með leikmönnum karla og kvenna og staða mála könnuð. Á þessum árstíma eru oft ýmis mál óljós, sérstaklega vegna þess að ávallt eru sumir sem hafa í huga að skoða dvöl á erlendum vettvangi, t.d. í skóla.

 

Hjá körlunum er Fannar spurningamerki, því hann hyggst reyna að komast til Evrópu í atvinnumennsku. Fannar á örugglega góða möguleika á því og má allt eins reikna með honum á meginlandinu næstu leiktíð. Ef hann fer ekki út verður hann í Keflavík, svo mikið er víst. Gunnar E, Jonni og Maggi eru samningsbundnir Keflavík næstu leiktíð svo við fáum að njóta krafta þeirra áfram. Vonir stjórnar standa til þess að halda öllum öðrum leikmönnum innan liðsins og reynt verður að ganga frá þeim málum á næstu dögum, eins og áður var sagt. Þó munu ávallt einhver mál vera opin fram eftir sumri. Ekki er útilokað að nýir leikmenn komi til liðsins, auk þess sem Kanamálin munu ekki skýrast strax, þó við horfum með hlýjum hug til félaganna Nick og Derrick sem stóðu sig svo vel í vetur.

 

Hjá konunum standa vonir okkar til þess að tryggja óbreyttan hóp á næstu leiktíð, þó ekki sé allt frágengið í þeim málum. Ekki hefur gefist tími til að ræða þau mál nánar en það verður gert hið fyrsta.