Fréttir

Körfubolti | 28. janúar 2007

Afar slakt í Hveragerði í kvöld - Bikardraumurinn úti

Það mátti sjá mikil vonbrigði í augum þeirra fjölmörgu Keflvíkinga sem mættu á undanúrslit Bikarsins í Hveragerði í kvöld, þegar leikurinn var flautaður af. Lengst af leit allt út fyrir nokkuð þægilegan Keflavíkursigur, okkar menn voru skrefinu á undan fram í miðjan þriðja leikhluta. Leikurinn var frekar hægur og slitróttur, alveg samkvæmt kokkabók Péturs Ingvarssonar, þó vorum við illskárri. Níu stigum yfir í hálfleik og 16 stigum yfir þegar þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður. Þá var staðan 36 - 52 fyrir okkar menn og ekkert útlit fyrir annað en að Kef væri á leið í Höllina.

Sverrir Þór, sem var besti maður Keflavíkur í kvöld, hafði stolið nokkrum boltum, smá fjör komst í mannskapinn og menn töldu að gamla hraðlestin væri kannski að detta inn á sporið. En nei, því miður, það gerðist ekki. Í staðinn fyrir að láta kné fylgja kviði, settust menn á bossann og hreinlega hættu að leika aggressívan körfubolta. Vörnin, sem hafði verið ágæt lengstum, opnaðist hvað eftir annað, hraðinn hvarf úr sóknarleiknum og öll áræðni hvarf eins og dögg fyrir sólu. Mistök hrönnuðust upp og ekkert sjálfstraust var í skotunum. Illt var í efni.

Hvergerðingar héldu áfram með gönguboltann og dúlluðu sér í 20 - 24 sekúndur í hverri sókn, leituðu að Byrd í teignum og hnoðuðust áfram þar til þeir fengu opin skot. Þristarnir fóru að detta, tveir stórir hjá Bojan og svo fór Friðrik loks að hitta. Á sama tíma voru okkar menn í bullinu. Forystan bráðnaði, Hamar/Selfoss skoraði 14 - 2 og minnkaði muninn í 50 - 54. Þá upphófst stöðubarátta, hæg og róleg, sem endaði með því að heimamenn komust yfir, 64-63, þegar Lárus setti niður þrjú vítaskot eftir að brotið hafði verið á honum í 3ja stiga skoti.

Hamarsmenn náðu síðan fimm stiga forskoti 70-65 og örvæntingin var allsráðandi hjá Keflavík. Samt tókst að minnka muninn í tvö stig, 72-70, þegar 26 sekúndur lifðu leiks, en hvorugt liðið skoraði á lokasprettingum þannig að þetta varð niðurstaðan. Óskum við Hamars-Selfyssingum til hamingju með sigurinn. Þeir voru trúir sinni leikaðferð og drógu hægt og rólega tennurnar úr okkar mönnum.

Keflvíkingar náðu aldrei að keyra upp hraðann í leiknum, létu boltan ekki ganga hratt milli manna og nýttu ekki opin færi þegar þau gáfust, jafnvel opin dauðafæri undir körfunum. Eins skorti áræðni og hugrekki til að láta hlutina gerast. Sebastian klúðraði hrikalega og Ismail var daufur, bæði í vörn og sókn. Magnús hefði að ósekju mátt reyna meira, ekki síst með gegnumbrotum og Gunnar virkaði kraftlítill. Sverrir var góður, stal m.a. sex boltum og Arnar átti ágæta spretti, þó hann hefði mátt vera duglegri að keyra upp hraðann og koma boltanum í leik. Jonni var ágætur, en eins og aðrir, hefði hann lika mátt nýta hraða sinn betur og keyra upp að körfunni. Fráköstin voru léleg og verður að teljast undarlegt að annan leikinn í röð er Arnar Freyr frákastahæsti maður liðsins, nú með sex fráköst. Gott hjá honum vissulega, en dapurt hjá "stóru" mönnunum.

Þannig fór um sjóferð þá. Ekki eru hlutirnir að ganga hjá okkur eins og vonast hefði verið til. En ekki þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði. Framundan er lokabaráttan í deildinni og markmið liðsins hlýtur að vera að koma sér upp í fjórða sæti deildarinnar til að eiga heimaleik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. En til að svo geti orðið þarf ýmislegt að breytast. Gamla Keflavíkursjálfstraustið þarf að endurfæðast, með einhverju móti, og menn þurfa að njóta þess að leika körfubolta. Þetta var mikið kjaftshögg í kvöld, en alvöru baráttumenn standa upp eftir höggið og berjast af enn meiri grimmd en áður. Vonandi tekst okkur að snúa blaðinu við á komandi vikum.

ÁFRAM KEFLAVÍK!