Aftur háspena í oddaleik þegar Keflavík tryggði sér sæti í úrslitum með sigri á Grindavík, 66-62
Leikurin í kvöld byrjaði með miklum látum og miklum hraða hjá báðum liðum. Bæði lið beittu pressuvörnum og ætluðu að keyra upp hraðann. Hittnin var góð og greinilegt að bæði lið ætluðu að leika af fullum krafti. Nokkrar þriggja stiga körfur litu dagsins ljós og eftir 10 mín var staðan 20-23 fyrir Grindavík. Eftir þetta hægðist verulega á leiknum og varð hann að mörgu leyti svipaður og tveimur fyrri leikjum liðanna þar sem varnarleikurinn var afar góður en sóknirnar frekar staðar og stirðar. Keflavík náði forystu fljótlega í öðrum leikhluta með 3ja stig körfu frá Svövu en náðu ekki að festa hana í sessi og Grindavík gekk á lagið og hafði góða 5 stiga forystu í hálfleik, 34-39.
Í seinni hálfleik tók stressið völdin og baráttan var allsráðandi. Hittni beggja liða var slök og t.d. hittu Keflavíkurstúlkur aðeins úr 20 af 65 skotum í leiknum sem er verulega slakt. Enda voru þær lengst af smeykar við að fara nærri körfunni vegna Keshu Tardy sem varði 6 skot í leiknum. En sóknarleikur Grindavíkur var ekki betri, þær létu boltann mest ganga fyrir utan svæðisvörn Keflvíkinga og keyrðu lítið inn. Báðum liðum gekk brösulega að skora.
Í stöðunni 40-43 var Tardy skipt út af í nokkrar mínútur og þær mínútur notaði Keflavík til að ná forystunni. Erla Þorsteinsdóttir sem átt hafði erfitt uppdráttar í sókninni fann sjálfstraustið og Keflavík setti sex stig í röð og breytti stöðunni í 46-43. Eftir það var Keflavík í bílstjórasætinum og lét forystuna ekki af hendi. Þriðji leikhlutinn var eign Keflvíkinga sem skoruðu 18 stig gegn 7 og staðan orðin 52-46. Leikurinn í restina var ekki glæsilegur áferðar, því baráttan og stressið voru allsráðandi, en forystan hélt. Lokatölur voru 66-62 fyrir Keflavík.
Pressuvörn Keflavíkur tók sinn toll af Grindavíkurstúlkum sem voru orðnar lúnar í lokin og náðu ekki góðum sóknum í restina. Anna María (16 stig, 15 frák) og Erla Þorsteinsdóttir (18 stig, 8 frák) voru bestar Keflvíkinga og Svava (12 stig) átti mjög góðar rispur og var óhrædd við að keyra upp að körfu gestanna líkt og í síðastu leikjum. Erla, Marín og Birna voru allar góðar í vörninni en hafa átt betri daga sóknarmegin. Rannveig (5 stig) kom gríðarlega sterk inn í lokin og gerði veigamiklar körfur.
Hjá Grindavík voru þær Tardy, Ólöf og Sólveig atkvæðamestar sem fyrr og gerðu 18, 15 og 12 stig.
Mikilvægast var að Keflavík vann leikinn og nú eru stúlkurnar komnar í úrslit þar sem þær mæta ÍS. Sú rimma hefst næsta miðvikudag.