Fréttir

Körfubolti | 8. desember 2005

Algert skipbrot gegn Madeira

Madeiringar hafa verið fastagestir á fjölum Sláturhússins undanfarin þrjú ár. Síðustu tvö árin hafa þeir mátt lúta í lægra haldi gegn vöskum og baráttuglöðum Keflvíkingum sem beitt hafa pressuvörnum og bombað þristum neðan úr bæ. En í kvöld var öldin önnur. Tvennt kom til. Madeira mætti til leiks með sterkara lið en fyrr og Keflavík mætti með lakara lið en fyrr. Í staðinn fyrir Nick og Tony eða Nick og Derrick eru AJ og Zlatko. Og þótt AJ hafi leikið fanta vel hingað til í keppninni, er ekki líku saman að jafna. Og þar fyrir utan, og það skiptir jafnvel meira máli en styrkur einstakra leikmanna, Madeiringar mættu til leiks banhungraðir og graðir í sigur en Kefarar voru daufir frá fyrstu mínútu. Og þegar þetta allt er tekið saman, þá er ekki að sökum að spyrja.

Madeira tók forystu snemma í leiknum með fantagóðri vörn allan völlinn og Damitri Hill óviðráðanlegan í sókninni. Munurinn varð fljótt tíu stig, minnkaði um stundarsakir í fimm en í hálfleik var staðan 40-51, gestunum í vil. Seinni hálfleikur var síðan alger einstefna, varnarleikur okkar manna ósýnilegur og sóknarleikurinn flumbrukenndur, eins og 28 tapaðir boltar bera gott vitni um. Munurinn fór í tæp 30 stig en 3ja stiga hittni Gunnars Stefánssonar varð til þess að leikurinn tapaðist ekki með "nema" 21 stigi, 87-108.

Eftir frábæran leik gegn Riga á dögunum voru margir stuðningsmenn Keflavíkur vongóðir um að okkur tækist að leggja þá Portúgölsku að velli. En því miður náðu okkar menn sér engan veginn á strik. Helstu stigaskorarar okkar, AJ og Maggi voru vart sýnilegir, nema þegar þeir yfirgáfu völlinn, AJ með fimm villur og Maggi eftir óþarfa brottrekstur. Bakverðir okkar áttu í stökustu vandræðum með að stilla upp sókninni sem varð ómarkviss fyrir vikið. Ljósin í myrkrinu voru góð hittni Gunna Stef sem og ágætar hreyfingar Jonna sem fann oft glufur í sókn andstæðinganna. En heilt yfir lék Keflavíkurliðið illa, bæði í vörn og sókn. Hinu skal þó ekki neita, að andstæðingar okkar voru afar sterkir. Damitri Hill er t.d. svaka bolti sem erfitt er að eiga við inní teignum. Hann gerði 20 stig í fyrri hálfleik og skoraði að vild, en hafði hægt um sig í þeim seinni.

Nú þarf ekkert minna en kraftaverk til að fleyta okkur áfram í keppninni. 22ja sigur á útivelli er nauðsyn, hvorki meira né minna! En aðalatriðð er kannski að halda í útileikinn til að rétta af okkar hlut og sýna að við eigum heima í þessari úrslitakeppni.

Hér má sjá tölur úr leiknum.

ÁFRAM KEFLAVÍK!