Algjör einstefna gegn Snæfell
Keflavíkurstúlkur áttu ekki í miklum erfiðleikum í dag þegar þær tóku á móti Snæfellsstúlkum, en lokatölur leiksins voru 118-62.
Leikurinn byrjaði þó á öðrum nótum, því Snæfellsstúlkur spiluðu fínan leik og gáfu ekkert eftir. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-21. Í öðrum leikhluta fóru Keflavíkurstúlkur hamförum og skoruðu 36 stig gegn 9, en á þessum tímapunkti var ljóst í hvað stefndi. Keflavíkurstúlkur héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og fengu ungu stelpurnar mikinn spilatíma. Þær stóðu sig feykilega vel og náði Aníta Viðarsdóttir m.a. að landa 10 stigum, en hún var full af sjálfstrausti sem og allar í liðinu.
Pálína Gunnlaugsdóttir fór hamförum í leiknum og skoraði 35 stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Jacqueline Adamshick gerði 18 stig og tók 15 fráköst, en hún hefur reynst mikill fengur fyrir Keflavík í þessum fyrstu leikjum liðsins. Birna Valgarðsdóttir skoraði 19 stig. Hjá Snæfell voru Inga Municiniece og Hildur Kjartansdóttir með 12 stig.