ALLIR á unglingalandsmót
Nú styttist í mögnuðustu fjölskylduhátíð sumarsins þegar 12. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Unglingalandsmótin eru góð blanda af fjölbreyttri íþróttakeppni þar sem þátttakendur á aldrinum 11-18 ára eru í fyrirrúmi. Samhliða er boðið upp á margvíslega afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Keflvíkingum er alltaf að fjölga á hátíðinni enda er reynslan sú að þeir sem mæta í fyrsta skipti vilja ólmir koma aftur að ári. Ekki skemmir það fyrir þetta er ódýrasta hátíðin sem haldin er þessa miklu ferðahelgi. Keflavík býður, líkt og undanfarin ár, öllum keppendum á vegum félagsins greiðslu þátttökugjalda á mótinu, en þau eru 6.000 kr. fyrir hvern keppanda. Eitt gjald er borgað fyrir hvern keppanda sem gildir sem þátttökugjald í allar greinar. Frítt er í sund og á tjaldsvæðin líkt og áður en þeir sem vilja rafmagnstengingu borga 1.000 kr. fyrir ótakmarkaða notkun alla helgina.
Glæsilega dagskrá mótsins má nálgast á heimasíðu mótsins; http://www.umfi.is/unglingalandsmot/dagskra/.
Það skal vakin athygli á því að hægt er að skrá sig í liðsíþróttir, s.s. körfubolta og fótbolta þó svo að ekki sé búið að smala í lið innan félagsins. Það eru einfaldlega búin til lið á staðnum þannig að allir geti verið með sem vilja enda ungmennafélagsandinn í hávegum hafður. Þeir sem verða 11 ára á árinu 2009 eru þeir yngstu sem hafa keppnisrétt.
Þeir iðkendur, þjálfarar og forráðarmenn innan félagsins sem hafa hug á að skrá sig eða sína til keppni á mótinu eru beðnir að senda tölvupóst á jon.ben@arkitekt.is í síðasta lagi fimmtudaginn 23. júlí. Þar þarf að koma fram nafn, kennitala og heimilisfang viðkomandi iðkanda. Einnig skal tekið fram í hvaða íþróttagrein eða greinum viðkomandi ætlar að skrá sig í. Allir keppendur Keflavíkur verða síðan skráðir á mótið í einum pakka og þannig fáum við m.a. betri yfirsýn yfir stærð hópsins og hversu stóru tjaldsvæði við fáum úthlutað.
Allir keppendur á vegum Keflavíkur skulu hafa með sér félagstreyju af einhverri gerð þar sem K-merkið kemur fram. Einnig skulu þjálfarar og forrráðarmenn liða tryggja að samstæðir keppnisbúningar verði til taks.
Unglingalandsmótin eru vímuefnalaus hátíð. Þeir sem velja þessi mót eru meðvitaðir um þær reglur sem gilda og virða þær. Unglingalandsmótin hafa sýnt svo ekki verður um villst að það er lítill vandi að skemmta sér án vímuefna.
Fleiri upplýsingar og fréttir þegar nær dregur.

Óli Ásmunds. & fjölskylda mættu á þessum magnaða trukk á Keflavíkursvæðið í fyrra.