Fréttir

Andrés Kristleifsson semur við Keflavík
Karfa: Karlar | 29. maí 2014

Andrés Kristleifsson semur við Keflavík

Keflavík hefur samið við ungan og efnilegan bakvörð frá Hetti Egilsstöðum að nafni Andrés Kristleifsson en samningurinn er til tveggja ára. Andrés er 19 ára gamall og hefur leikið með uppeldisfélagi sínu Hetti allan sinn feril. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Andrés verið einn af máttarstólpum í meistaraflokki 1. deildarliðs Hattar sl. þrjú ár en í vetur var hann með 10.5 stig, 4 fráköst og 2,5 stoðsendingar á leik. Höttur spilaði í vor til úrslita gegn Fjölni um laust sæti í Domino´s deildinni en varð að lúta í grasi.

Hvernig lýst þér á komandi tímabil með Keflavík og hver var kveikjan að því að koma hingað?
Mér lýst vel á komandi tímabil. Ég hlakka til að takast á við ný tækifæri og þroskast sem leikmaður. Ástæðan fyrir þvi að ég valdi Keflavík var að mig langaði að breyta til og fá að spreyta mig í úrvalsdeild.

Nú ertu að koma úr 1. deild, þar sem þú hefur spilað mikið þrátt fyrir ungan aldur, heldur þú að stökkið milli deildanna sé stórt?
Það verður auðvitað miklu meira challenge að spila í úrvalsdeild og meiri gæði en ég er spenntur og tilbúinn í að takast á við það.

Mikil ánægja ríkir innan herbúða Keflavíkur með að Andrés skyldi velja Keflavík sem næsta áfangastað en talsverður áhugi var á kappanum hjá öðrum liðum í Domino´s deildinni enda kappinn m.a. í úrtakshóp fyrir U20 ára landsliðið.