Fréttir

Anna Ingunn framlengir til þriggja ára
Karfa: Konur | 21. maí 2022

Anna Ingunn framlengir til þriggja ára

Anna Ingunn Svansdóttir hefur framlengt samning sinn við körfuknattleiksdeild Keflavíkur til þriggja ára. Anna Ingunn, sem er uppalin Keflavíkurmær, hefur vaxið gríðarlega sem leikmaður undanfarin ár og er hún orðin ein af burðarásum liðsins. Þessi mikla þriggjastiga skytta skoraði 16,5 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili ásamt því að taka 3 fráköst og gefa 2,5 stoðsendingar. Spilamennska Önnu Ingunnar skilaði henni sæti í A-landsliði kvenna.

 

Mikil ánægja er innan herbúða Keflavíkur með áframhaldandi veru Önnu Ingunnar hjá Keflavík enda mikils að vænta af henni á næstu leiktíð og í framtíðinni. Sjálf kveðst hún spennt fyrir framtíðinni. “Ég er mjög ánægð að hafa skrifað undir hjá Keflavik og hlakka til komandi tímabila og að spila fyrir Hörð. Hörður er flottur þjálfari með mikinn metnað og er ég mjög spennt að hefja tímabilið. Mér líst mjög vel á nýju stjórnina og er ég stolt af því að halda áfram að spila fyrir uppeldisfélagið.”

 

Magnús Þorsteinsson, formaður Keflavíkur, telur mikilvægi Önnu Ingunnar óumdeilt og þar sé rísandi stjarna á ferðinni. “Við erum með heimastelpu sem hefur bætt sig ár eftir ár og hefur nú fengið smjörþefinn af A-landsliðinu. Það sýnir auðvitað hvers hún er megnun og ekki síður mikilvægi góðra þjálfara og yngriflokkastarfs. Við þurfum að viðhalda því og ekki sofna á verðinum heldur halda áfram að gera vel. Það hefur verið rosalega gaman að fylgjast með Önnu Ingunni móta sig í lykilhlutverk liðsins og vænti ég þess að hún haldi áfram á sömu braut”

 

Hörður Axel Vilhjálmsson, sem nýlega var ráðinn aðalþjálfari liðsins eftir tvö ár sem aðstoðarmaður Jóns Halldórs Eðvaldssonar, er þegar farinn af stað með undirbúning liðsins fyrir komandi tímabili. Ætlunin er að ungt lið Keflavíkur mæti vel tilbúnar til leiks í haust en spennandi verður að fylgjast með stelpunum á komandi leiktíð.