Fréttir

Körfubolti | 26. febrúar 2007

Arnar Freyr er meiddur á hné, hugsanlega ekki meira með á leiktíðinni

Bakvörðurinn okkar knái, Arnar Freyr Jónsson, varð fyrir því óláni í gær að lenda í samstuði við hinn stóra og stæðilega George Byrd. Byrd datt ofan á Arnar þannig að mikill þungi lagðist á innanverðan fótlegg Arnars. Ekki er ljóst á þessari stundu hver meiðslin eru, en að öllum líkindum hefur hann skaddast á utanverðum liðböndum hægri fótar og hugsalega einnig liðþófa í hné. Þess utan kennir hanns sér meins í ökklanum. Á næstu dögum munu meiðslin verða greind nákvæmlega með myndatökum og nákvæmri skoðun. Það verður því miður að teljast ólíklegt að Arnar muni leika meira með Keflavík á þessari leiktíð.

Þetta eru slæmar fréttir, bæði fyrir Arnar sjálfan og vitanlega einnig fyrir Keflavíkurliðið sem má illa við skakkaföllum um þessar mundir. Við vonum þó að meiðslin séu eins lítil og mögulegt er, og að kappinn verði fljótur að ná fullri heilsu á ný. Heimasíðan mun greina betur frá ástandi Arnars Freys um leið og upplýsingar berast. Við óskum Arnari að sjálfsögðu góðs og skjóts bata.