Fréttir

Arnar Freyr skrifar undir samning - Stutt spjall við síðasta hlekk Keflavíkurkeðjunnar
Karfa: Karlar | 6. september 2013

Arnar Freyr skrifar undir samning - Stutt spjall við síðasta hlekk Keflavíkurkeðjunnar

Leikstjórnandinn Arnar Freyr Jónsson skrifaði í gær undir samning um að leika með Keflavík á komandi leiktíð. Arnar Freyr er uppalinn Keflvíkingur og hefur leikið nánast allan sinn feril í Keflavík að undanskildum nokkrum árum þar sem hann lék með Grindavík og í Danmörku.

Arnar kom inn í mitt tímabil í fyrra og lék átta leiki í deild og þrjá leiki í úrslitakeppni, þar sem frammistaða hans óx með hverjum leik. Arnar kveðst virkilega spenntur fyrir komandi tímabili og segir hann deildina eiga eftir að verða spennandi; "Mér líst rosalega vel á deildina í vetur enda fullt af góðum liðum".

Andy Johnston tók við liðinu í ágúst sl. og hefur hann nú stýrt liðinu í fjórar vikur, hvernig lýst Arnari Frey á nýja þjálfarann?
"Andy er að gera góða hluti með okkur. Hann er með nýjar áherslur og leikkerfi sem við eigum eftir að detta betur inn í á næstu dögum. Þegar það gerist fer þetta að lýta vel út hjá okkur.

Hversu langt getur Keflavík náð í vetur?
Við getum gert það sem við viljum í vetur. Þurfum bara allir að vera á sömu blaðsíðunni og allir að draga þennan blessaða vagn í sömu áttina - þá verðum við á toppnum að keppa um alla þá titla sem í boði eru, rétt eins og Keflavík á alltaf að gera!