Átakalítill útisigur á Blikum, 98-105 - Gunni Stef með körfu frá miðju!
Hápunkturinn í leiknum í kvöld var eflaust skot Gunnars Stef í blálokin á fyrri hálfleiknum. Keflavík fékk boltann þegar tæpar 3 sekúndur voru eftir af hálfleiknum og Gunnar bar boltann upp völlinn. Þegar tíminn var að renna út var Gunnar á harðaspretti um miðbik vallarins og kallað var "skjóttu" úr öllum áttum. Gunnar gerði sér lítið fyrir og skaut föstu skoti sem hafnaði beint í netinu - "sviss". Með þessari flottu þriggja stiga körfu náði Keflavík 9 stiga forskoti, 42-51, í hálfleik. Jonni átti líka flotta körfu eftir að Keflavík hafði splundrað vörn Blikanna. Derrick henti boltanum upp og Jonni kom svífandi, greip boltann í loftinu og tróð viðstöðulaust.
Annars var kæruleysi áberandi í byrjun leiks og Blikar komust í 7-0 og höfðu 26-20 forskot eftir fyrsta leikhluta. En svo vöknuðu Bikarmeistararnir til lífsins og náðu 9 stiga forskoti eins og áður sagði. Jonni kom sterkur inn og var grimmur í vörn og sókn skoraði 14 stig í leiknum, tók 9 fráköst og stal 5 boltum.
Í seinni hálfleik jókst pressan og mistök heimamanna hrönnuðust upp. Arnar átti flottan sprett, skoraði 7 stig á stuttum tíma og alls 10 í leiknum. Nick og Derrick skiluðu sínu og í lok þriðja leikhlutans var munurinn 20 stig, 66-86, og sigurinn blasti við.
Kanarnir hvíldu allan fjórða leikhluta sem hófst ágætlega. Hjörtur var sprækur, en hann gerði 13 stig í kvöld. Svo misstu menn einbeitinguna og Blikar minnkuðu forskotið, ekki síst með nokkrum þristum og vegna stórleiks Pálma Sigurgeirssonar. Hann gerði 35 stig af öllum gerðum, en Pálmi er góður leikmaður og erfiður viðureignar.
Lokastaðan var 98-105. Leiktíminn skiptist bróðulega milli manna og allir skoruðu, þar af voru sex með10 stig eða meira. Nick setti 21, Derrick 18 og tók 11 fráköst, Jonni 14/9/5, Hjörtur 13, Arnar og Halldór 10 hvor, Gunni Stef 8, Sverri 5 og Gunni E og Davíð 4 hvor, en Davíð átti auk þess 7 stoðsendingar. Mikið var reynt af 3ja stiga skotum, alls 37 en aðeins 11 rötuðu rétta leið, þar af átti Hjörtur 3.
Í heildina séð var sigurinn fyrirhafarlítill, ágætir sprettir innan um, og gott að detta ekki í bull eftir Bikarsigurinn, eins og stundum vill verða. Næst á dagskrá er heimaleikur gegn KFÍ á föstudaginn.