Auðveldur sigur á ÍR-stúlkum, Kef 92 - ÍR 53
Keflavíkurstúlkur fóru í langa rútuferð í gær þegar þær óku til Akureyrar og aftur til baka á sama degi. Tilgangurinn var leikur í Bikarkeppninni gegn Þór og vannst sá leikur, eins og frá hefur verið greint. Vel getur verið að þessi rútu-dagur hafi setið eitthvað í stúlkunum, því þær voru nær óþekkjanlegar á fyrstu mínútum leiksins gegn botnliði ÍR.
ÍR komst í 0-8 og síðan 3-11. Eftir fyrsta leikhluta var staðan orðin 9-19 fyrir ÍR og hreinlega ekkert að gerast hjá okkar stúlkum, hvorki í sókn ná vörn. En nú fóru stúlkurnar að finna taktinn. Anna María fór fyrir sínum mönnum eins og svo oft áður og lék ásamt Birnu Valgarðs lykilhlutverk í góðum spretti sem endaði 24-6 fyrir Keflavík. Staðan í hálfleik var því 33-25 og útlitið betra.
Í seinni hálfleik sást síðan Keflavíkurliðið eins og það getur verið hvað best. Liðið valtaði hreinlega yfir gestina og vann seinni hálfleikinn 59-28 og úrslit leiksins voru 92-53. Rannveig Randversdóttir átti mjög góðan leik og einnig skoraði María Ben mikið á lokakaflanum. Liðið var afar kaflaskipt í þessum leik, en sýndi góð tilþrif í seinni hálfleik sem dugðu í stórsigur. Allar stúlkurnar léku ágætlega í seinni hálfleik og öllum tókst að skora. Stigahæstar voru Birna og Rannveig með 15 hvor, Anna gerði 13, Svava 11 og María 10.
Nú bíða menn/konur bara eftir Bikardrættinum sem verður á morgun. Í pottinum eru eftirtalin félög:
- Hjá konum: Keflavík, Haukar, KR og ÍS
- Hjá körlum: Keflavík, Njarðvík, Grindavík og Snæfell.