Auðveldur sigur á ÍS
Keflavík sigraði ÍS með 33 stigum í gær, 88-55 eftir að staðan hafði verið 50-25 í hálfleik. Keflavík er því í ágætri stöðu í öðru sæti með 28 stig þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Grindavík er með 26 stig og eiga rétt eins og Keflavík eftir að spila við Hauka sem urðu í gær deildarmeistarar.
Það voru aðeins 8 ÍS stelpur sem komu til Keflavíkur í gær og höfðu þær í við Keflavík í fyrsta leikhluta, 20-19. Keflavíkurstelpur völtuðu gjörsamlega yfir andstæðinginn í öðrum leikhluta því ÍS náði aðeins að skora 6. stig sem er með því allra lægsta sem sést hefur í Keflavík. Keflavík lagði þar með grunninn að sigri sínum og gátu hvílt lykilmenn.
Þær slökuðu kannski heldur mikið í þriðja leikhluta en áttu fína spretti undir lok leiks og öruggur sigur í höfn. Alda Leif Jónssdóttir og Signý Hermannsdóttir léku ekki með gestunum og nokkuð ljóst að við slíkum missi mega þær ekki við.
Kesha gerði 25 stig í leiknum og María Ben Erlingsdóttir gerði 19 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Svava skoraði 11 stig, Birna 10 og Bryndís 9 stig.
Hjá ÍS var Stella Kristjánsdóttir með 13 stig, Þórunn Bjarnadóttir gerði 12 og Helga Jónasdóttir var með 7 stig og 13 fráköst.