Auðveldur sigur gegn Snæfell
Keflavíkur-stúlkur voru rétt í þessu að rúlla yfir Snæfells-stúlkur, en lokatölur leiksins voru 83-56. Allt annar bragur er á Keflavíkur-liðinu um þessar mundir, en þær spiluðu einnig með nýjan leikmann í liðinu í kvöld og var það Kristi Smith, en hún stóð sig prýðilega. Keflavíkur-stúlkur byrjuðu leikinn af hörku og náðu mjög fljótlega miklum stigamun og sýndu algjöra yfirburði, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-5. Hálfleikstölur voru 42-24, en Snæfells-stúlkur höfðu náð að saxa eilítið á forskotið með þrautseigju. Lítil breyting varð í 3ja og 4ja leikhluta, en Snæfells-stúlkur náðu mest að minnka muninn í 17 stig í 3ja leikhluta.
Keflavíkur-stúlkur eru til alls líklegar í næstu leikjum og miðað við frammistöðu Kristi Smith eftir örfáar æfingar með Keflavíkur-liðinu, þá á hún klárlega eftir að vera mikill styrkur fyrir liðið. Stigahæst hjá Keflavík var Kristi Smith með 21 stig, en á eftir henni kom Birna Valgarðsdóttir með 15 stig. Hjá Snæfell var Kristen Green stigahæst með 18 stig, en á eftir henni kom Gunnhildur Gunnarsdóttir með 17 stig.