Fréttir

Körfubolti | 12. febrúar 2006

Auðveldur útisigur á Haukum í kvöld, 102 - 76

Það þarf ekki að fjölyrða um leik Keflavíkurliðsins í kvöld. Þeir komu, sáu og sigruðu slakt lið Hauka að Ásvöllum með töluverðum yfirburðum. Keflavík náði fljótlega yfirhöndinni og munurinn jókst hægt og örugglega út leikinn. Eftir fyrsta leikhluta var forystan 10 stig, í hálfleik 15, eftir þriðja leikhluta 17 og svo í lokin 26 stig, 102-76 fyrir Keflavík.

AJ átti náðugan dag og gat skorað nánast að vild, gerði 31 stig kappinn sá. Þrír aðrir leikmenn voru með yfir 10 stig, þeir Gunnar Einarss (15), Arnar (13) og Maggi (13). Arnar átti skemmtilega spretti í sókninni og Gunni var afar skotviss, setti niður fjóra þrista í fimm tilraunum. Annars náðu allir tólf leikmennirnir að komast á blað og tvær síðustu körfurnar skoruðu þeir Jón Gauti og Þröstur.

Þrátt fyrir yfirburðina var ekki um stórleik að ræða hjá okkar mönnum. Vörnin var "la la" og sóknarleikurinn misjafn, best gekk þegar hraðinn var keyrður upp. Haukamenn hafa nokkra hávaxna leikmenn innan sinnan vébanda, auk þess sem bakverðir eru sprækir, þeir Pryor og Sævar. En liðið ræður engan veginn við hraðan körfubolta, því þeir köstuðu boltanum í gríð og erg út af vellinum og gerðu sigurinn þar með auðveldari fyrir okkar menn.

Hér má sjá tölur úr leiknum.

Ekki verður Keflavíkurliðið dæmt af þessum leik, þó vissulega megi telja það til tíðinda að vinna vandræðalaust í Hafnarfirði, oft höfum við reyndar sigrað, en yfirleitt eftir basl og ströggl. Ekkert slíkt var uppi á teningnum í kvöld.

Nú tekur við vikutörn þar sem æft verður stíft fyrir sjálfan Bikarúrslitaleikinn sem fram fer í Höllinni á laugardaginn. Þá verður fjör ....

ÁFRAM KEFLAVÍK!