Barátta Keflavíkur og ÍR hefst í kvöld
Keflavík og ÍR mætast í kvöld í Toyotahöllinni í fyrsta leik liðanna i undanúrslitum Iceland Express-deild karla. Keflavík vann Þór 2-0 í 8. liða úrslitum en ÍR sigraði KR 1-2 og því hafa okkar strákar verið í lengri hvíld. Leikurinn hefst kl. 19.15 í kvöld og er von á fullu húsi. Það er því ráðlagt að mæta tímalega til að tryggja sér gott sæti.
Liðin hafa mæst í mörgum skemmtilegum viðureignum í gegnum tíðina og hafa áhorfendur liðanna sett skemmtilegan svip á þá leiki. Keflavik sigraði í báðum viðureignum liðanna í vetur en frá fyrri viðureigninni sem fram fór í Keflavík hefur ÍR liðið breyst talsvert. Þann leik vann Keflavík, 110-79. Þann seinni unnu okkar menn 77-88 og þá var liðið eins skipað og það er í dag þeas. Nate Brown og Tahirou Sani voru komnir í leikmannahóp þeirra. Stigahæstir okkar manna í þeim leik voru þeir B.A með 22.stig, Siggi 18.stig, Tommy 13.stig og Arnar og Susnjara með 10.stig. Hjá ÍR voru þeir Sveinbjörn, Nate og Hreggviður stigahæstir.
Árið 2005 er mörgum stuðningmönnum Keflavíkur fersku minni. Þá komu ÍRingar til Keflavíkur og sigruðu í fyrsta leiknum 80-88. Næsta viðureign liðanna var í Seljaskóla og skemmst frá því að segja að okkar menn tóku þann leiks strax í sínar hendur og sigruðu 72-98. Keflavík sigraði svo einvígið 3-1 og varð Íslandsmeistari það árið eftir sigur á Snæfell í úrslitum.