Fréttir

Karfa: Unglingaráð | 26. febrúar 2009

Bikarhátíð í Keflavík um helgina

Mikil bikarhátíð fer fram í Keflavík um helgina þegar leikið verður til úrslita í Bikarkeppni KKÍ í yngri flokkunum.  Mótið fer fram í Toyota höllinni við Sunnubraut og verður í umsjón Unglingaráðs Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.  Leikar hefjast kl. 10.00 á laugardag og lýkur úrslitunum með lokaleik kl. 16.00 á sunnudag.  Alls verða leiknir níu úrslitaleikir og eiga Keflvíkingar fjögur lið í úrslitum að þessu sinni sem verður að teljast góður árangur.  KR ingar eiga einnig fjögur lið og UMFN stendur ekki langt að baki með þrjú lið í úrslitum.

Undanfarin ár hefur það komið í hlut félaganna að halda utan um bikarúrslitaleiki yngri flokkanna og hefur það gefið góða raun.  Í fyrra voru það FSu menn og árin tvö þar á undan hélt KR utan um mótið.  Bæði félögin gerðu þetta vel og hafa gefið tóninn fyrir framhaldið. 

Að leika til úrslita í bikarkeppninni er frábær upplifun fyrir  yngri leikmenn þar sem leitast er við að skapa alvöru umgjörð og stemmingu í kringum leikinn. Þannig verður þetta að hátíðlegum viðburði sem allir leikmenn vilja verða partur af á hverju ári. 

Við hvetjum alla áhugamenn um körfubolta að fjölmenna um helgina og fylgjast með mesta efniviði körfuboltans í dag.

Unglingaráð KKDK