Brotlending í bikarnum
Keflvíkingar fengu útreið á eigin hemavelli í kvöld þegar þeir steinlágu fyrir sprækum Tindastólsmönnum í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins.
Jafnt var á tölum í upphafi leiks en Stólarnir tóku forskotið þegar líða fór á 1. leikhluta. Varnarleikur okkar manna var hriplekur og lélegur og liðið fékk á sig heil 33 stig í leikhlutanum gegn 24 skoruðum. Annar leikhluti var allt annar og betri og strákarnir virtust vera að vakna til lífsins en staðan í hálfleik var 52-47 fyrir Keflavík. Í síðari hálfleik slokknaði hins vegar á flestum kertum okkar manna og skelfilegt var að upplifa það andleysi sem virtist herja á liðið og aðeins ágerast eftir því sem leið á leikinn, en liðið setti aðeins 26 stig í síðari hálfleik. Lokatölur 95-78 og verðskuldaður sigur hjá gestunum í kvöld enda fögnuðu þeir vel í leikslok.
Erfitt er að tína eitthvað jákvætt út úr þessum leik. Sigurður Þorsteinsson átti fínan fyrri hálfleik en týndist í þeim síðari. Hörður Axel átti þokkalegan leik heilt yfir og reyndi að rífa menn með sér en tókst ekki að tendara neinn neista hjá félögum sínum. Hörður átti m.a. 12 stoðsendingar í leiknum. Tino var að stíga sterkari upp sóknarlega en í undanförnum leikjum en varnarlega var hann slakur. Lazar var algjörlega óþekkjanlegur frá fyrri leikjum. Hann virtist ekki ganga heill til skógar og setti aðeins tvær körfur í leiknum.
Það er dapurlegt að menn skuli ekki koma tilbúnir í mikilvægasta leik tímabilsins fram að þessu. Leikgleði virtist vanta í liðið og aldrei náðist upp sú stemming í liðinu sem hefur verið til staðar í undanförnum leikjum í deildinni. Virkileg kúvending og hreinlega áhyggjuefni.
Stólarnir koma aftur í heimsókn n.k. fimmtudag kl. 19.15 í deildinni og þá verður fróðlegt að sjá hvort menn verði búnir að rífa af sér doðann eða ekki. Þátttöku liðsins í bikarnum þetta tímabilið er þó lokið, það er ljóst