Brotlending í Ljónagryfjunni
Það bjuggust eflaust flestir við toppslag í Iceland Express deild kvenna þegar að Keflavíkurstúlkur mættu í Ljónagryfjuna til að sækja Njarðvíkurstúlkur heim á sunnudaginn. Þessi lið voru í tveimur efstu sætum deildarinnar og hafa fyrri leikir þessara liða verið mjög fjörugir og spennandi. Svo fór að Njarðvík var með öll völd á vellinum og rasskelltu okkar stúlkur, en lokatölur leiksins voru 94-53.
Njarðvíkurstúlkur byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og komust í 12-0 forystu, sem var í raun lygileg byrjun. Keflavíkurstúlkur hrukku þó í gang og náðu að saxa forskotið niður í 4 stig. Njarðvíkurstúlkur voru þó ekki á því að hætta sinni baráttu og sýndu mikla baráttu og góða vörn í leiknum. Njarðvík leiddi leikinn í hálfleik með 12 stigum. Það hlakkaði í mörgum Njarðvíkingum við þetta en þó voru margir hræddir um að Keflavík myndi hrökkva í gang og snúa gangi leiksins algjörlega við. Það gerðist þó ekki og flaug hvert skotið á fætur öðru niður hjá Njarðvík á meðan ekkert gekk upp hjá Keflavík. Þær útlensku hjá Njarðvík fóru hamförum og náðu í gríð og erg að spila sig inn í gegnum vörn Keflavíkur og gera auðveldar körfur. Að lokum var þetta orðið mjög sálrænt og var ótrúlegt að sjá hvert skotið á fætur öðru hjá Njarðvík fljúga ofan í körfuna.
Í stuttu máli áttu Keflavíkurstúlkur engan möguleika á sigri í leiknum og var þetta því miður slakasti leikur þeirra á tímabilinu. Þær verða þó bara að draga lærdóm af þessu tapi og koma tvíefldar til baka, en næsti leikur þeirra er annað kvöld gegn Haukastúlkum. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eru allir hvattir til að láta sjá sig.