Fréttir

Bryndís með sigurkörfuna gegn Val - Stutt viðtal við Bryndísi
Karfa: Konur | 18. október 2013

Bryndís með sigurkörfuna gegn Val - Stutt viðtal við Bryndísi

Keflavíkurstúlkur unnu eins stig sigur á Val, 85-86, í Vodafonehöllinni á miðvikudag í Domino´s deild kvenna. Var þetta þriðji sigurleikur stúlknanna í röð og sitja þær einar á toppi deildarinn. Byrjun sem fáir höfðu spáð fyrir um. Porsche Landry var stigahæst með 25 stig auk þess að taka sex fráköst og gefa sjö stoðsendingar. Lovísa Fals lét rigna þristum en hún setti niður 18 stig - öll úr þriggjastigaskotum. Sara Rún Hinriksdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir komu svo næstar með 15 stig hvor en sú síðarnefnda bætti þar að auki við 12 fráköstum og 4 vörðum skotum auk þess að skora sigurkörfuna þegar aðeins 2 sekúndur lifðu leiks eftir sóknarfrákast. Heimasíðan heyrði í Bryndísi og bar undir hana nokkra hluti...

Góður sigur gegn Val í gær þó tæpt hafi verið – hvað skóp þennan sigur? Takk fyrir það. Liðsheildin númer eitt, tvö og þrjú. Það mættu allar tilbúnar í leikinn og við erum að gera þetta saman sem lið.

Nú skoraðir þú sigurkörfuna þegar aðeins 2 sekúndur voru eftir af leiknum eftir að hafa tekið sóknarfrákastið – hvað fer um huga þinn frá því að skotið hjá Porsche geigaði og þar til þitt fór ofan í? Að ég ætlaði að ná þessum bolta og setja þetta lay-up ofaní þar sem ég var búin að brenna af nokkrum lay-upum fyrr í leiknum og við ætluðum ekki að tapa þessum leik það var alveg á hreinu.

Ykkur var spáð 5. sæti og svo virðist sem deildin sé jafnari en oft áður hvernig sérðu veturinn fyrir þér? Já, en við erum líka að sýna það að við erum ekki lið sem eigum heima 5. sæti. Deildin er mjög jöfn sem gerir hana bara skemmtilegri og þarf maður að mæta í alla leiki og gefa sig alla fram í hann sem við ætlum að gera.

Þú hefur verið að leika gríðarlega vel persónulega og ekki síst varnarmegin, finniru fyrir aukinni ábyrgð þetta tímabilið eftir brotthvarf lykilleikmanna og meiðsli Birnu? Takk fyrir það, auðvitað er meiri ábyrgð núna og það verður mjög gott að fá Birnu aftur. Ég er líka bara svo ánægð með hópinn, skemmtilegar stelpur og við náum mjög vel saman. Það er góð stemning í liðinu og það eru allar tilbúnar til að leggja meira á sig núna þegar það vantar þessa tvo mikilvægu lykilleikmenn sem Birna og Ingunn eru en önnur er meidd og hin ólétt. Er líka mjög stolt af stelpunum sem eru að spila stærra hlutverk núna og er að skila því hlutverki ekkert smá vel.

Eitthvað að lokum? Takk fyrir stuðninginn og vonandi verða stuðningsmennirnir duglegir að mæta á leikina okkar í vetur. Mynd:www.vf.is