Búið spil hjá Keflavíkurstúlkum
Annað árið í röð þurfa Keflavíkurstúlkur að sætta sig við að komast ekki í úrslitarimmuna, en stelpurnar töpuðu fyrir Hamri rétt í þessu. Lokatölur leiksins voru 93-81 og voru Hamarsstúlkur grimmari aðilinn í leiknum. Keflavíkurstúlkur voru fljótar að koma sér í villuvandræði, en báðar Birna Valgarðsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir þurftu að stíga út af velli með 5 villur þegar nokkrar mínútur voru eftir af 4. leikhluta. Það var mikil blóðtaka fyrir liðið sem náði aldrei að saxa almennilega á forskot Hamarsstúlkna. Keflavíkurstúlkur eru því komnar í sumarfrí og er þetta 4. skiptið síðan 1993 að kvennalið Keflavíkur nær ekki að komast í úrslit.
Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atkvæðamest með 28 stig og 9 fráköst. Svava Stefánsdóttir átti fínan leik og skoraði 23 stig, en hún setti oft mjög mikilvægar körfur niður á réttum augnablikum í leiknum. Kristi Smith gerði einungis 11 stig og má með sanni segja að hún hafi verið andlega fjarverandi í síðustu leikjum, einmitt þegar liðið hefur þurft á henni að halda. Hvað veldur er ómögulegt að segja, en tilgangslaust að velta því fyrir sér núna þegar tímabilið er á enda hjá stelpunum. Hjá Hamri var Julia Dermier allt í öllu, en stelpan gerði 39 stig og tók 18 fráköst. Koren Schram var með 19 stig.