Charles Parker í viðtali
Meiri harka skóp sigurinn
- viðtal við Charles Parker
Charles Parker átti enn einn stórleikinn á báðum endum vallarins í sigri Keflavíkur gegn Stjörnunni í 2. leik liðanna í 8-liða úrslitum sem fram fór í Sláturhúsinu í Keflavík. Parker, sem gengur jafnan undir viðurnöfnunum "Clutch", "CP4" eða "MVpee"*, virðist vera þindarlaus en drengurinn er á 200% krafti í vörn og sókn allan leikinn og hefur undirritaður til að mynda aldrei orðið vitni af bandarískum leikmanni sem leggur sig jafn mikið fram varnarlega og Parker gerir. Þá er hann auk þess drífandi karakter en slíkt er mikilvægt í stórum leikjum. Parker var að vonum sáttur í leikslok en hann sagði að helsti munurinn á leik eitt og leik tvö hafi verið hversu einbeittir og sterkir líkamlega Keflvíkingar hefðu verið.
Hver var helsti munurinn á liðinu í leik tvö og í leik eitt?
Mesti munurinn var sá að við létum ekkert taka okkur út úr okkar leik og við spiluðum miklu harðar og voru sterkari. Við leyfðum þeim auk þess ekki að skora mikið inni í teig.
Hver var helsta breytingin á leikskipulaginu?
Mesti munurinn var kannski sá að ég dekkaði Keith í stað þess að dekka Justin. Það fór mikil orga í að elta Justin sem kom í veg fyrir að ég tæki fráköst og gæti hjálpað liðsfélögum mínum meira í vörn.
Hvað fannst þér um áhorfendurna?
Þeir voru frábærir. Ég elskaði andrúmsloftið. Því fleiri aðdáendur sem mæta því meiri kraft og orku gefa þeir okkur. Vonandi koma þeir á leik þrjú í Garðabæ og hjálpa okkur að sækja S (Svar Parker bauð upp á bókstafinn W sem er stytting á WIN og því þótti rétt að færa bókstafinn yfir á íslensku og varð S-ið því fyrir valinu, þ.e. sem stytting á SIGUR. Færum við þýðingarmiðstöð RÚV kærar þakkir fyrir innblásturinn)
Getum við sigrað leik nr. þrjú í Garðabæ?
Þetta á ekki einu sinni að vera spurning. Auðvitað getum við unnið! Við þurfum að halda áfram að vera einbeittir í 40 mínútur og spila af eins miklum krafti og við getum. Útileikir eru erfiðir, en við getum þetta!
Hvað þarf til svo að við sigrum Stjörnuna í oddaleiknum?
Við þurfum að spila saman á báðum endum vallarins og vera harðir af okkur.
Hvernig hefur þér líkað lífið í Keflavík og að spila með Keflavíkurliðinu?
Þetta hefur verið mjög gaman. Ég hef haft mjög gaman af því að spila með liðinu og þetta hefur verið frábær reynsla. Mér finnst eins og ég sé frá Keflavík. Ég deili ástríðu aðdáendanna fyrir liðinu sem og ástríðunni að vinna aðra og vera á toppnum!
Að lokum létum við Parker gefa okkur innsýn í liðið og leikmenn þess með sama hætti og aðrir
Hver er besti meðspilarinn þetta tímabilið?
Mér líkar að spila með öllum. Mér þótti rosalega gott að spila með Jonna "Slim" þegar það leit út fyrir að hann myndi spila með okkur. En í leikjum, þá líkar mér jafn vel við alla í liðinu og finnst skemmtilegt að spila með þeim öllum.
Hver er ruglaðastur í liðinu?
Almar, allt sem hann gerir er ruglað.
Hver er með mesta húmorinn?
Mesti húmoristinn er Hafliði, en venjulega er ég nú að hlæja AF honum...
Hver er með mesta "swagið"?
Sá sem hefur mest "swag" er Valur.**
*Parker var valinn MVP í bikarúrslitaleiknum. Strax eftir leikinn var hann kallaður í lyfjapróf þar sem hann þurfti að pissa í glas. Það tók um tvær klukkustundir og beið rúta liðsins eftir honum á meðan. Í kjölfarið fékk hann viðurnefnið MVpee. Menn ættu að skilja þetta.
**Fyrir þá sem eru ekki af rappkynslóðinni þykir rétt að útskýra orðið "swag" eða "swagger". Þegar einstaklingur er með "swag" hreyfir hann sig, hegðar sér og lítur út fyrir að vera fullur sjálfstraust, hann er svalur og meðvitaður um eigið ágæti sem leyðir það af sér að hann öðlast sjálfkrafa virðingu þeirra sem hann mætir. Þá tengist þetta einnig því hvernig viðkomandi klæðir sig, þ.e. að hann fylgi tísku og tískubylgjum. Dæmi um íþróttamenn sem eru með talsvert "swag" eru til að mynda Kobe Bryant og David Beckham, hvor á sinn hátt...