DÁSEMD eða DAUÐI ? Mikilvægur bikarslagur á morgun
Á morgun, sunnudag kl. 19.15, bíður blóðugur bikarslagur handan við hornið þegar Keflavík mætir liði Tindastóls í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins kl. 19.15 í Toyota höllinni
Bikarkeppnin er alltaf nýtt mót og á ekkert skylt við Íslandsmótið þar sem lið geta þolað einn og einn ósigur og samt haldið stöðu í deildinni. Í bikarnum þýðir ósigur einfaldlega útilokun frá viðkomandi keppni og þú getur farið heim í bað, prjónað og slappað af. Sigur þýðir hins vegar eitt skref áfram, í átt að stærsta einstaka leik tímabilsins sem er "bikarúrslitaleikur" fyrir fullri Laugardalshöll, í beinni á RÚV með flugeldafjöri í mótslok fyrir sigurvegarana.
Leikurinn á morgun er því MJÖG mikilvægur eins og hér er tíundað að ofan. Tindastólsmenn hafa verið að sækja í sig veðrið svo um munar í undanförnum leikjum. Þeir byrjuðu tímabilið illa undir stjórn hins snjalla austantjaldsþjálfara Borce Ilievski sem kom frá KFÍ fyrir tímabilið, en eftir að þeir hreinsuðu þrjá farþega úr aftursætinu í lok oktober og fengu tvo bílstjóra í staðinn hafa hlutirnir farið að keyra heldur betur.
Verkefni morgundagsins er einfalt, við þurfum að koma einbeittir til leiks og meðvitaðir um mikilvægi leiksins. Við þurfum að gleyma öllum útsölum, tónleikum, upplestrum og messum sem herja á samfélagið þessa helgina og reka nefið í átt til Laugardagshallarinnar og hugsa - Þarna ætlum við að mæta þann 19. febrúar n.k.
Stelpurnar "okkar" eiga einnig leik í sömu keppni á morgun þegar þær fara í Grafarvoginn og mæta liði Fjölnis kl. 16.00. Þær þurfa sömuleiðis að vara á varðbergi og mæta með ákveðni til leiks. Þær eru fyrirfram með bollann í hendinni en það telur einfaldlega ekki neitt ef þú heldur honum ekki láréttum.
Mætum öll sem getum og styðjum okkar fólk á morgun & annað kvöld, öðruvísi er ekki hægt að ætlast til neins.
ÁFRAM KEFLAVÍK
ATH. "Vildarkortin" gilda EKKI á bikarleiki í Powerade bikarnum þar sem um sameiginlega heimaleiki er að ræða með aðkomuliðunum.