Fréttir

Körfubolti | 11. mars 2007

Drengjaflokkur Keflavíkur er Bikarmeistari KKÍ 2007

Drengjaflokkur Keflavíkur varð Bikarmeistari eftir úrslitaleik gegn FSu í DHL Höllinni í Vesturbænum fyrr í dag.

Falur Harðarson, þjálfari lagði áherslu á það frá upphafi að boltanum væri komið inní teig á Sigurð Þorsteinsson til að nýta yfirburði hans undir körfunni. Það gekk ekki of vel því andstæðingarnir léku stíft gegn Sigga þannig að erfitt var að senda á hann boltann. Þetta varð til þess að sóknarleikurinn var frekar þungur í upphafi og leikurinn rólegur. Báðum liðum gekk illa að skora og staðan var 13-11 fyrir FSu eftir fyrsta leikhluta.

Rólegheitin héldu áfram í næsta leikhluta og Keflavíkursóknin náði ekki að hrökkva í gang. Leikmenn voru oft hægir á leið sinni fram völlinn og fundu ekki auðveld skot. Enda höfðu Keflavíkurpiltar aðeins gert 22 stig á fyrstu 20 mínútum leiksins. En sem betur fer kom það ekki að sök því varnarleikurinn var mjög góður hjá okkar piltum, ekki síst undir körfunum. Þeir kumpánar Sigurður Þorsteinsson og Þröstur Jóhannsson vörðu alls 14 skot í leiknum (Siggi 9 og Þröstur 5) og Elvar bætti einu við þannig að alls vörðu Keflvíkingar 15 skot í leiknum. Þetta gerði andstæðingunum verulega erfitt um vik og skoruðu þeir ekki mikið undir körfunum. Í hálfleik var staðan 25-22 fyrir FSu.

Í seinni hálfleik fóru svo hlutirnir loks að gerast hjá okkar mönnum. Boltinn barst mun hraðar upp völlinn og menn fóru að fá betri skottækifæri. Þröstur Leó sem hafði gert fimm stig í fyrri hálfleik tók til sinna ráða og setti 21 stig í seinni hálfleiknum, alls 26 stig í leiknum. Hann gerði m.a. fimm þriggja stiga körfur, þar af tvær "flautukörfur", eina úr horninu í fjórða leikhluta þegar skotklukkan var að renna út, en í blálok þriðja leikhluta gerði hann tvímælalaust körfu leiksins þegar hann smellti boltanum spjaldið og oní aftan við miðjulínuna. Flautan gall þegar boltinn var í loftinu og Keflvíkingar fögnuðu grimmt þegar boltinn hafnaði í körfunni. Með þeirri körfu náði Keflavík sex stiga forystu 47-41 og litu piltarnir ekki um öxl eftir það og innbyrtu sannfærandi 12 stiga sigur, 67-55.

Þröstur var valinn maður leiksins og var vel að því kominn, með 26 stig, 8 fráköst, 5 varin og 4 stolna bolta. Sigurður átti einnig prýðilegan leik, sérstaklega í vörninni, 15 fráköst, 9 varin skot og 10 stig. Axel, Magni og Elvar skiluðu sínum hlutverkum vel og Sigfús átti flotta innkomu, gerði m.a. sjö stig í fjórða leikhluta. Glæsilegur sigur hjá piltunum og óskum við þeim og Fali þjálfara innilega til hamingju með titilinn. Strákarnir lögðu sig fram og uppskáru eftir því. Nú er bara að vona að þeir landi einnig Íslandsmeistaratitlinum í lok leiktíðar, en þar hafa þeir leikið einkar vel til þessa. FSu-drengjum þökkum við fyrir keppnina.

ÁFRAM KEFLAVÍK!