Ef við erum allar saman í þessu kemur bikarinn heim til Keflavíkur - Stutt viðtal við Pálínu Gunnlaugsdóttur
Keflavíkurstúlkur halda á Stykkishólm á morgun þar sem þær mæta Snæfelli í 4-liða úrslitum Poweradebikarsins kl. 15.00. Pálína Gunnlaugsdóttir, bakvörður- og fyrirliði Keflavíkur, segir að undirbúningur liðsins fyrir leikinn gangi vel. Pálína hefur leikið gríðarlega vel fyrir topplið Keflavíkur. Hún var valin leikmaður fyrri umferðarinnar í Domino´s deild kvenna á dögunum en það sem af er leiktíðinni er hún að skila 16 stigum, 5 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir leikinn á morgun?
Hann gengur mjög vel. Við erum mjög spenntar að fara á Hólminn að spila. Það sást kannski á okkur í síðasta leik að mínu mati að hugurinn var aðeins farinn ad gæla við bikarleikinn.
Hvað þurfi þið að gera til að fara með sigur af hólmi?
Við þurfum að spila af miklum krafti og vera tilbúnar þegar leikurinn byrjar, leggja okkur fram í vörninni og spila körfubolta í 40 mínútur. Þá ættum við að vera í ágætis málum.
Megum við eiga von á að bikarinn komi til Keflavíkur í ár?
Ég hef mjög mikla trú á liðinu og ef við erum allar saman í þessu þá kemur bikarinn heim í Keflavík, ekki spurning!
Eitthvað að lokum?
Já, það má kannski minna á að það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur stelpurnar, eins og strákana, að fá stuðningsmenn okkar til að hvetja okkur áfram til sigurs - Áfram Keflavík!!