Fréttir

Karfa: Karlar | 4. apríl 2011

Ég trúi ennþá! Keflvíkingar tryggðu sér oddaleik í kvöld

Hjartatöflurnar seldust upp í sjoppunni í Toyota Höllinni í kvöld þegar Keflavík og KR áttust við í 4. leik 4-liða úrslita
Iceland Express deildar karla. Það er óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið nóg fyrir sinn snúð þegar þeir fylltu
húsið í kvöld. Annan leikinn í röð þurfti að framlengja og svo fór að Keflvíkingar lönduðu mögnuðum sigri 104-103.

Leikurinn var bráðfjörugur í alla staði og bæði lið með mikinn vilja til að landa sigri. Bæði lið skiptust á að eigna sér
forystu í fyrri hálfleik og svo fór að staðan í hálfleik var 44-44.

Seinni hálfleikur var barátta út í gegn, en KR-ingar voru hænuskrefi á undan, þar til Keflvíkingar jöfnuðu leikinn á
28. mínútu. Eftir það virtust KR-ingar líklegri til að stíga fram og koma sér í úrslitin. Keflavíkurhjartað hætti ekki að
slá hjá Keflavík og svo fór að Magnús Gunnarsson jafnaði leikinn þegar tæpar 2 mínútur voru eftir af leiknum og
þakið í húsinu var við það að rifna af. Andrija Ciric átti lokasókn Keflvíkingar þegar um 4 sekúndur voru eftir en
skotið geigaði og framlengt.

Í framlengingunni voru KR-ingar með fyrstu 6 stigin. Keflvíkingar spýttu þá í lófana og Thomas Sander kom þeim yfir
þegar um 8 sekúndur voru eftir af leiknum. KR-ingar misnotuðu næstu sókn og brutu á Sigga Stóra. Hann fór á línuna
og misnotaði bæði vítin. KR-ingar brunuðu fram og Ólafur Már Ægisson reyndi erfitt 3ja stiga skot sem að
Gunnar Einarsson varði vel. Lokatölur 104-103.

Magnús Þór Gunnarsson átti frábæran leik og setti 29 stig, en það voru 7 magnaðir þristar sem fóru niður hjá drengnum.

Stigaskor kvöldsins:

Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 29/4 fráköst, Thomas Sanders 21/8 fráköst/7 stoðsendingar,
Hörður Axel Vilhjálmsson 16/6 fráköst/7 stoðsendingar, Andrija Ciric 13/11 fráköst, Gunnar Einarsson 12/7 fráköst,
Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/8 fráköst/7 stoðsendingar/5 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 5.

KR: Marcus  Walker 28/9 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 20, Pavel Ermolinskij 16/17 fráköst/5 stoðsendingar,
Finnur Atli Magnússon 12/8 fráköst/3 varin skot, Fannar Ólafsson 9/10 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 6,
Ólafur Már Ægisson 6, Hreggviður Magnússon 6.

 

Nú er ljóst að oddaleik þarf til að útkljá viðureignina. Sá leikur fer fram á fimmtudaginn í DHL Höllinni og er
ætlast til að allir Keflvíkingar sem hafa gaman af körfubolta láti sjá sig.

Áfram Keflavík!