Ekkert fæst gefins í úrslitakeppninni - Stutt viðtal við Michael Craion
Keflavík mætir Stjörnunni í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar fimmtudaginn 21. mars en leikurinn serm er í Garðabæ hefst kl. 19.15. Michael Craion leikmaður Keflavíkur hefur sannarlega staðið fyrir sínu á þessu tímabili og var verðlaunaður fyrir framlag sitt á dögunum þegar hann var valinn besti leikmaður deildarinnar fyrir umferðir 12-22. Í samtali við heimasíðu Keflavíkur kvað Michael möguleika Keflavíkur í seríunni við Stjörnuna góða; "Við erum að undibúa okkur fyrir úrslitakeppnina með því að bæta í vörnina og taka harðar á því á æfingum. Við erum sífellt að reyna að bæta okkur og gera okkur tilbúna fyrir það andrúmsloft sem ríkir í úrslitakeppni, þar sem ekkert fæst gefins og öll lið munu gefa allt sitt í þetta".
Í hverju felast möguleikar Keflavíkur?
Ef við bætum leik okkar örlítið og spilum stífa vörn í gegnum úrslitakeppnina eigum við góða möguleika að fara áfram því við eigum í raun ekki í vandræðum með að skora þar sem við eigum fullt af góðum skorurum.
Margir hafa talað um að breidd Keflavíkurliðsins sé lítil og við fáum ekki nægjanlega mikið frá bekknum, hvað segir þú um slíkt?
Ég er ekki sammála. Við þurfum ekki á miklum stigum að halda frá bekknum heldur frekar að menn komi inn með kraft í vörnina og gera hina litlu hlutina sem skipta miklu máli. Ef við gerum það komum við til með að ná langt því við höfum svo sannarlega getuna til að fara alla leið.