Ekkert gefið þrátt fyrir tap
Síðasti undanúrslitaleikur Keflvíkinga í bikarkeppni yngri flokka fór fram í gær þegar lið KR heimsótti Toyota-höllina í Unglingaflokki kvenna. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu þurftu stelpurnar að játa sig sigraðar eftir hetjulega baráttu og verður ekki annað sagt en þær hafi fallið úr leik með mikilli sæmd.
Keflavík tefldi einungis fram stelpum úr 9. og 10. flokki félagsins í þessum leik gegn vel mönnuðu liði KRinga þar sem m.a. fjórir nýkrýndir bikarmeistarar m.fl. voru mættar til leiks, þar af tveir lykilleikmenn og A-landsliðskonur.
Stelpurnar mættu einbeittar til leiks og sýndu strax að þær ætluðu að láta KRinga hafa fyrir hlutunum. Ekki var að sjá að Keflavíkurliðið væri að spila 4-5 ár upp fyrir sig og var fyrri hálfleikur liðsins líklega sá besti sem þær hafa leikið í vetur. Vörnin frábær og mikið flæði í sóknarleiknum. Þriðji leikhluti reyndist okkur hins vegar erfiður. Þrátt fyrir að byrja hann ágætlega, töpuðum við honum með 11 stigum sem reyndist erfitt bil að brúa þegar á reyndi. Stelpurnar gáfust þó aldrei upp og sýndu frábæra samheldni og baráttuanda allt til loka og unnu fjórða leikhluta með sex stigum. Bekkurinn var virkilega hvetjandi í þessum leik og algjörlega til fyrirmyndar í alla staði. Telma, sem stjórnaði sóknarleiknum af festu lengst af, Eva Rós Guðmunds., María og Sigrún áttu allar frábæran leik. Eva er ótrúlegur nagli sem aldri gefst upp og lék vel bæði í vörn og sókn. María tók fyrrum Keflvíkinginn Margréti Köru hreinlega í gjörgæslu í vörninni og átti sá ágæti leikmaður sem Kara er í miklu basli með sóknarleikinn þrátt fyrir ítrekuð áhlaup. Sigrún lék einnig frábærlega í vörninni og hefði átt skilið nokkur heimboð á vítalínuna en dómarar leiksins gáfu okkur allt of lítið í teignum í þessum leik og voru heldur slappir á heildina litið. Árný Sif átti stórleik í vörninni en hefði gjarnan mátt láta meira að sér kveða í sóknarleiknum. Heildar frammistaða liðsins var til mikils sóma og framtíðin verður að teljast björt fyrir meistaraflokk félagsins að hafa þennan hóp innan seilingar.
Keflavík - KR
57-67 (13-15, 30-35, 38-54)
Stigaskor Keflavíkur:
Telma Lind 13 (3/2), Eva Rós Guðmunds. 12 (1/0), María Ben 11 (7/3), Árnína Lena 8 (2/2), Sigrún Alberts. 8, Lovísa Fals. 2, Soffía Rún 2 og Árný Sif 1 (2/1). Eva Rós Haralds. náði ekki að skora. Anita Viðars, Emelía Ósk og Kristjana Vigdís léku ekki að þessu sinni.
Vítanýting 8/15 eða 53,3%.
Stigahæstar í liði KR voru þær Dóra Þrándardóttir með 18, G.Gróa Þorsteinsd. 14, Margrét Kara 12 og Heiðrún Kristmunds.11.
Vítanýting KR var 17/27 eða 63,0%