El-classico hjá strákunum og Toppslagur hjá stelpunum
Nú þegar landsmenn eru búnir að skjóta sig í kaf með rakettum og skottertum er vel við hæfi að bjóða til flugeldasýningar að dýrari gerðinni í Sláturhúsinu en það má ekki búiast við öðru en stórum bombum og miklum látum þegar Njarðvíkingar koma í heimsókn í TM höllina.
Keflavík - Njarðvík fer fram fimmtudaginn 5. janúar næstkomandi í TM höllinni á hinum heitt elskaða heilaga körfuboltatíma 19:15. Sjaldan hafa þessi lið leikið í einhverju sem kalla mætti botnslag en raunin er einfaldlega sú að Keflavík situr í 8. sæti með 10 stig og Njarðvík í því næst síðasta 11. sæti með 8 stig. Því verður um allt að kljást þegar liðin mætast á fimmtudaginn næstkomandi.
Grillaðir burgers fyrir leik og því vel við hæfi að setja áramótaátakið á hold og skella í sig hátíðarhammara af K-grillinu.
Svo fyrir þá sem ætla koma sér í form eftir hátíðarveislurnar mun leikur laugardagsins halda púlsinum uppi og eflaust koma margir til með að svitna þegar toppslagur í kvennadeildinni fer fram í Sláturhúsinu en þá fá Keflvísku stelpurnar Snæfell í heimsókn. Leikið verður kl 16:30, enda um laugardagsleik að ræða.