Er Stöð 2 að reyna að gera lítið úr íslenska landsliðinu í körfubolta?
Í kvöld var stór dagur fyrir íslenskan körfubolta. Íslenska landsliðið vann frækinn sigur á Rúmenum og hélt þar með möguleika sínum opnum á að komast upp í A-deild. Afar mikilvægur sigur fyrir íslenska lansliðið og íslenskan körfubolta.
Þessum leik hafa verið gerð nokkuð góð skil í fjölmiðlum, enda hefur KKÍ lagt verulega af mörkum við að kynna leikinn og aðstæður landsliðsins. RÚV sýndi leikinn beint í sjónvarpinu, Leikurinn var vel kynntur af Rás2, Fréttablaðið fjallaði ítarlega um leikinn sem og DV. KKÍ hélt blaðamannafund, kynnti leikinn vel á heimasíðu sinni, auglýsti í Fréttablaðinu og miðar voru gefnir á Rás 2 og hjá Valtý Birni á Skonrokki. Forsala var á Skeljungsstöðvum og í íþróttahúsinu í Keflavík. Svona mætti áfram telja. Enda vakti leikurinn verðskuldaða athygli og mætingin var góð í Keflavík og stemmingin á leiknum frábær.
En Stöð 2 reyndi að láta líta út eins og leikuirnn væri ekki til, einhverra hluta vegna. Óskiljanlegt. Ekkert var fjallað um leikinn undanfarna daga. Og í íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Gaupi að íslenska landsliðið hefði unnið Rúmeníu, 79-73. Ein setning og búið! Hvað er málið? Engar myndir, ekki sagt hverjir voru stigahæstir, engin viðtöl, ekki neitt. Það læðist að manni sá grunur að fréttamaðurinn hafi ekki viljað segja frá velgengni í körfubolta.
Við skiljum vel að mikið var að gerast í íþróttum á landinu þar sem lokaumferðin var á sama tíma í fótboltanum. En þar var ekki við KKÍ að sakast, þar sem KKÍ fékk leikinn sérstaklega fluttan frá laugardegi yfir á sunnudag til að forðast árekstur við fótboltann. En KSÍ færði alla síðustu umferðina yfir á sunnudag með litlum fyrirvara og KKÍ gat ekki fært leikinn aftur tilbaka. Því fór sem fór.
Þetta er þó engin afsökun fyrir því að sýna landsliðinu þá lítilsvirðingu sem Stöð2 gerði í kvöld. Körfuknattleiksforystan og félögin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fjölmiðlar eigi sem greiðastan aðgang að leikjum, leikmönnum og þjálfurum. Athyglisvert væri að fá viðbrögð frá Stöð2 (eða Gaupa, sem sá um fréttirnar) um þetta mál. Af hverju var íslenska landsliðið í einni vinsælustu íþrótt landsins dissað svona hrikalega af Stöð 2 á mikilvægri og gleðilegri sigurstundu? Hvað býr að baki?